Drjúg kjörsókn utankjörfundar í forsetakosningum

Um eða yfir 900 Austfirðingar hafa kosið utankjörfundar fyrir forsetakosningarnar sem haldnar verða á morgun.

Tæplega 52.000 manns hafa kosið utankjörfundar á landinu öllu, þar af 859 á Austurlandi samkvæmt bókhaldi sýslumannsins á Austurlandi, sem heldur utan um utankjörfundaratkvæðagreiðsluna. „Þetta er nokkuð drjúg þátttaka,“ segir Lárus Bjarnason, sýslumaður.

Síðustu daga hefur starfsfólk embættisins aðstoðað þá sem dvelja á sjúkrastofnunum og öldrunarheimilum auk þess sem kosið hefur verið á sýsluskrifstofum.

Flest atkvæðin eru á Fljótsdalshéraði og í Fjarðabyggð, rúmlega 310 talsins í hvoru sveitarfélagið. Þá hafa fleiri konur en karlar greitt atkvæði, þær eiga 56% þeirra atkvæða sem komin eru.

Lárus segir kjörsóknina jafnvel hafa verið meiri en búist var við. Þannig voru viðbótar kjörseðlar fengnir frá Reykjavík í vikunni og starfsmaður frá Seyðisfirði sendur til að aðstoða við atkvæðagreiðslu á Egilsstöðum.

Við kosningarnar í ár er notað nýtt tölvukerfi frá Þjóðskrá sem Lárus segir veita starfsfólki kjörstjórna betri upplýsingar um utankjörfundaratkvæði. Það eigi að flýta fyrir afstemmingu, sem er sá þáttur sem oftast hefur tafið talningu atkvæða.

Að auki hefur verið kosið utankjörfundar í forsetakosningunum á Bókasafninu á Egilsstöðum. Þar greiddu ríflega 100 manns atkvæði, flestir í dag eða 18 talsins.

Utankjörfundar kjósa gjarnan þeir einstaklingar sem sjá fram á að vera að heiman á kjördag eða fólk sem er á ferðalagi og kaus ekki áður en það fór af stað. Þeir sem eru að heiman eru ábyrgir fyrir því að koma atkvæði sínu sjálfir í sína heimakjördeild.

Utankjörfundaratkvæðagreiðslu á Austurlandi er nú lokið. Ekki er hægt að kjósa utankjörfundar á kjördag. Hins vegar er hægt að gera svokallaða millikjördeildarfærslu innan sama kjördæmis. Íbúi á Djúpavogi getur til dæmis mætt á kjörstað á Egilsstöðum og óskað eftir henni. Þá er send beiðni á kjörstjórn hans heimaumdæmis og ef hún samþykkir hann tekinn af kjörskrá þar og fluttur til. Þetta tekur hins vegar töluverðan tíma og veldur óþægindum fyrir aðra kjósendur því stöðva þarf kosninguna meðan kjörskrám deildanna er breytt.

Atkvæði í Norðausturkjördæmi verða talin á Akureyri. Þau eru keyrð úr kjördeildum víða um Austurland í Egilsstaði þaðan sem flogið verður með þau norður.

Í vikunni hefur einnig staðið yfir utankjörfundaratkvæðagreiðsla í nafnakosningu fyrir sameinað sveitarfélag Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Fljótsdalshéraðs á skrifstofum sveitarfélaganna. Hjá Fljótsdalshéraði fengust þær upplýsingar að kjörsókn hefði verið góð og yfir 100 manns tekið þátt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.