Djúpivogur: Beðið með úthlutanir lóða meðan skipulag er klárað

Sveitarstjóri Djúpavogshrepps segir töluverðan áhuga á að fá íbúðalóðir og mögulega atvinnustarfsemi í þéttbýlinu. Beðið er með afgreiðslu þeirra meðan lokið er við deiliskipulag.


„Það hefur verið töluverður áhugi. Ég held mér sé óhætt að fullyrða að fjórir aðilar hafi lýst yfir áhuga á að reisa hér íbúðarhús. Falast hefur verið eftir íbúðahúsalóðum en við höfum ekki verið með deiliskipulögð svæði,“ segir Gauti Jóhannesson sveitarstjóri.

Skipulags-, framkvæmda- og umhverfisnefnd Djúpavogs úthlutaði einni lóð við Vörðu en hafnaði annarri við Hlíð á síðasta fundi sínum. Í bókun nefndarinnar með seinni afgreiðslunni segir að ekki sé mælt með frekari úthlutun lóða á meðan nánari útfærsla á deiliskipulagi liggur ekki fyrir. Að auki þurfi að skoða umhverfið við Hlíð. Mælt er með að farið verði í vinnuna sem fyrst.

Hvati til byggingu íbúða

Í bókun frá sama fundi segir að fjöldi umsókna um lóðir til íbúðabygginga hafi vaxið umtalsvert á síðustu mánuðum. Óhagræði sé að afgreiða einstök mál þegar deiliskipulagið liggi ekki fyrir á einstökum svæðum eða eldra skipulag þarfnist endurskoðunar.

Unnið er að skipulagi svæða í Hlíð og Borgarlandi, sem eru þar sem komið er inn í þorpið. Búið er að halda íbúðafundi og liggur fyrir nokkuð af gögnum. Gauti rekur áhugann til hvata sveitarfélagsins sem styrkir húsbyggjendur um 1,5 milljón króna, meðal annars með niðurfellingu gjalda, gegn því að byggingin sé komin á ákveðið stig í lok árs 2017. „Við eigum því láni að fagna að það er dálítið af fólki að flytjast hingað aftur og við bjóðum þennan hvata til að mæta spurn eftir íbúðahúsnæði.“

Ferðaþjónusta í miðbænum

Eins er unnið að deiliskipulagi miðbæjarins og er stefnt að því að kynna fyrstu tillögur á íbúafundi í nóvember. Borist hafa fyrirspurnir um lóðir þar undir atvinnustarfsemi en engu verður úthlutað fyrr en skipulag hefur verið staðfest. Gauti segir áhuga á lóðum þar tengjast auknum ferðamannastraumi. „Það er ljóst að ef spár um aukinn fjölda ferðamanna ganga eftir þá er einsýnt að þessi litlu sveitarfélög þurfa að huga að því hvernig taka eigi á móti fjöldanum en líka hvernig eigi að standa að þjónustu við þá sem vilja setja upp tengda atvinnustarfsemi í miðbæjunum. Það verður of seint þegar allt er komið af stað.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.