Djúpavogshreppur sýknaður af skaðabótakröfu hluthafa Kvennasmiðjunnar

Djúpavogshreppur og tveir einstaklingar sem sátu á vegum hreppsins í stjórn Kvennasmiðjunnar ehf. hafa verið sýknaður af tæplega átta milljóna skaðabótakröfu minnihluta eigenda í félaginu. Þeir töldu sig hafa orðið fyrir skaða með að fá ekki að njóta forkaupsréttar áður en meirihluti stjórnarinnar ákvað að hætta rekstri félagsins í Löngubúð.


Kvennasmiðjan var stofnuð fyrir um þrjátíu árum af hópi Djúpavogsbúa til að framleiða og selja handverk. Þá hafði smiðjan umsjón með Löngubúð, rak þar veitingasölu og söfn. Um húsið var tíu ára leigusamningur frá 2005. Samkvæmt honum sá Kvennasmiðjan um allan rekstur í húsinu en greiddi enga leigu. Að sama skapi skyldi hreppurinn vinna að rekstrarfjármagni, til dæmis af fjárlögum ríkisins, ella leggja til rekstrarstyrk.

Í dóminum kemur fram að styrkurinn hafi verið takmarkaður en ljóst að sveitarfélagið lagði fram umtalsverða vinnu við umsýslu fyrir félagið. Ekki var tekið neitt gjald fyrir hana en hugmyndir voru uppi um að gera hana sýnilega í bókhaldinu.

Eftir að fækka tók í hópi handverkshópsins óskaði fyrrverandi formaður stjórnar eftir aukinni aðkomu hreppsins að félaginu. Fór það svo að sveitarfélagið keypti í tveimur áföngum 62% hlutafjár í Kvennasmiðjunni á nafnvirði og átti þá alls 78%.

Illa staðið að forkaupsrétti?

Deilurnar spruttu út frá því að hópur minni hluthafa taldi sig hafa verið hlunnfarinn um forkaupsrétt. Málið var höfðað af Eðvaldi Smára Ragnarssyni, fyrrum stjórnarmanni og þremur öðrum minni hluthöfum, gegn Djúpavogshreppi og Sóley Dögg Birgisdóttir, sveitarstjórnarmanni og Gauta Jóhannessyni, sveitarstjóra, sem sátu fyrir hönd hreppsins í stjórn Kvennasmiðjunnar.

Á stjórnarfundi í byrjun árs 2012 lagði Eðvald Smári fram bókanir þar sem hann fór fram á að hreppurinn skilaði bréfum sínum og að hann teldi alla alla gjörninga félagsins eftir hlutafjárkaup hreppsins 2010 ólögmæta.

Leitað var lögfræðiálits. Það var ekki lagt fram í dóminum en af því má ráða að fundið hafi verið að því hvernig staðið var að málum gagnvart forkaupsréttarhöfum. Í bókun frá fundi mótmælir Eðvald Smári því að hafa sýnt af sér tómlæti og óskar eftir fresti til að bregðast við álitinu.

Á næsta stjórnarfundi í lok febrúar 2012 tilkynnir Eðvald að hann hafi falið lögfræðingi sínum að fara yfir mál Kvennasmiðjunnar. Meirihluti stjórnar ákveður að aðhafast ekkert eftir álitið en óskar eftir því við sveitarfélagið að Kvennasmiðjan yrði leyst undan samningi um Löngubúð sem fyrst. Við það lagðist starfsemi Kvennasmiðjunnar svo gott sem niður.

Hagnaður verður að tapi

Hluthafarnir byggja 7,8 milljóna bótakröfu sína á því að samningsriftunin hafi verið ólögmæt. Þeir benda á að árin 2009-11 hafi að jafnaði verið um tveggja milljóna króna hagnaður á ári af starfseminni. Straumhvörf hafi orðið eftir gjörning meirihlutans og félagið tapað pening næstu ár á eftir. Tækifæri hefðu hins vegar verið í vaxandi ferðamannastraumi.

Hluthafarnir töldu meðal annars að ákvörðunina um að hætta rekstrinum hefði átt að bera undir hluthafafund, að Sóley og Gauti hefðu verið vanhæf þar sem þau sætu beggja vegna borðsins, hagsmunir hreppsins hefðu verið teknir fram yfir hagsmuni minni hluthafa og hreppurinn í raun stjórnað þeim.

Ekki forsenda fyrir stuðningi hreppsins

Málsvörn þeirra byggðist á móti meðal annars á því að ekki væri sama að stöðva áhættusaman rekstur og slíta félaginu. Ákvörðunin hafi því snúist um stöðvun útgjalda.

Stuðningur sveitarfélagsins hefði verið grunnurinn að hagnaði félagsins en ekki væri hægt að ætlast til þess að hreppurinn legði áfram til stuðnings starfsmanns endurgjaldslaust. Hluthöfum hefði verið fullkunnugt um þessa stöðu og því ekkert óeðlilegt að sölu þeirra á nafnvirði.

Í húsaleigusamningum var meðal annars ákvæðið um að sveitarfélagið gæti rift honum fyrirvaralaust ef miklar breytingar yrðu á fyrirkomulagi Kvennasmiðjunnar. Þær hafi orðið þegar fjöldi einstaklinga hefðu dregið sig út úr rekstrinum. Við bættist að félagið var illa starfhæft vegna ágreinings.

Kvennasmiðjan hafi breyst úr fjöldahreyfingu hannyrðafólks í félag með fáa hluthafa. Tilgangur félagsins hafi ekki verið hagnaður þess heldur hagnaður hannyrðafélags. Þegar framlag einstaklinganna hafi verið horfið hafi forsendurnar fyrir stuðningi félagsins brostið.

Vinnuframlag einstaklinga og stuðningur sveitarfélagsins voru forsendurnar fyrir rekstri Kvennasmiðjunnar. Fyrirsjáanleg hafi verið að ráðstöfun opinberra fjármuna í þágu félags sem einungis átti að reka í ágóðaskyni yrði stöðvuð. Kröfur um skaðabætur væru því órökstuddar.

Félagið ekki starfhæft vegna ágreinings

Í niðurstöðu dómsins er tekið undir nær allar röksemdafærslur stefndu. Vanhæfi þeirra er hafnað þar sem hreppurinn hafi ekki haft verulega hagsmuni af Löngubúð, meðal annars hafi leigan árið á eftir verið takmörkuð.

Að hætta rekstri teljist viðamikil ákvörðun en jafnist ekki á við slit. Með henni sé rekstrinum ekki beint í annan farveg en samkvæmt samþykktum. Í ljósi bókana Eðvalds Smára hafi ákvörðun stjórnar byggt á eðlilegu áhættumati og viðskiptalegum forsendum.

Dómurinn telur ekki sýnt að sveitarfélagið hafi beitt ráðandi hlut sínum til að hafa áhrif á stjórnun Kvennasmiðjunnar eða það haft sérstakra hagsmuna að gæta að losna undan samningi. Þá teljist hluthafarnir ekki hafa fært viðhlítandi sönnur á hvort eða hve miklu tjóni þau hafi orðið fyrir.

Gauti, Sóley Dögg og hreppurinn voru því sýknuð. Málskostnaður var felldur niður.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.