„Djúpavogsbúar eiga það inni að vera brjálaðir“

Oddviti Djúpavogshrepps er æfur yfir að til standi að fresta framkvæmdum við Hringveginn í Berufirði enn eitt árið þótt verkefnið sé inni á samgönguáætlun sem samþykkt var á Alþingi í haust. Hann segir þingmenn hafa komist upp með að svara ekki hvernig þeir ætluðu að fjármagna loforð sem gefin voru fyrir kosningar.


„Djúpavogsbúar eru bara brjálaðir enda eiga þeir það alveg inni. Það er er ekki búið að leggja svo litla vinnu í að koma þessu verkefni þangað sem það var komið,“ segir Andrés Skúlason, oddviti Djúpavogshrepps.

Eftir talsverð átök um legu vegarins hyllti loks undir lausn í fyrra og verkið var tilbúið til útboðs í byrjun þessa árs. Tíu milljörðum króna munar á framlögum til vegamála á fjárlögum ársins 2017 og samþykktrar samgönguáætlunar. Í síðustu viku varð ljóst að Berufjarðarbotninn yrði eitt þeirra verkefna sem ekki fengi framgöngu.

„Það er absúrd að horfa á þetta. Það er öllum verkefnunum fyrir austan frestað,“ bendir Andrés á.

Hvernig skeikar tíu milljörðum?

Á milli samþykktar áætlunarinnar og fjárlaga var kosið. „Fyrir kosningar var talað um uppbyggingu innviða á öllum sviðum og menn gortuðu sig af hagvextinum og góðri stöðu en það láðist að hugsa um hvernig ætti að afla tekna. Hvað er að gerast í því fjármálaráðuneyti þar sem skeikar tíu milljörðum á einu ári?“ spyr Andrés.

„Sjálfstæðisflokkurinn hefur komist upp með að sýna aldrei hvernig eigi að fjármagna loforðin. Auðlindagjaldið var lækkað, það má ekki hækka orkuskattana á stóriðjuna og dregið úr öllum tekjustofnum ríkisins þannig það getur ekki staðið undir þeirri innviðauppbyggingu sem ráðast þarf í. Vinstri grænir gagnrýndu þetta endurtekið, meðal annars í stjórnarmyndunarviðræðunum.“

Ráðherra með brækurnar á hælunum

Hann sendir ráðherra samgöngumála, Jóni Gunnarssyni, kaldar kveðjur. „Hann er með brækurnar á hælunum í öllum þeim málum sem hann hefur komið að. Hann virðist ekki hugsa út fyrir sitt kjördæmi og tekur einhliða ákvarðanir án samráðs.“

Andrés gefur lítið fyrir hugmyndir Jóns um að leggja vegtolla á leiðir út frá höfuðborginni til að nota í uppbygginu. „Það var aldrei minnst á þessa tekjuöflunarleið fyrir kosningar. Sú hugmynd er millileikur til að komast hjá spurningum um hvernig eigi að fjármagna það sem var búið að lofa. Það er ekkert nágrannasveitarfélag að fara að skrifa upp á þetta.“

Þingmennirnir samstíga?

Þingmenn kjördæmisins fá einnig kaldar kveðjur frá oddvitanum sem þykir fjármagnið sogast í norðurátt. Dæmi um það er fjárveiting í Dettifossveg og vegtengingar vegna kísiliðjunnar á Bakka.

„Það virðist vera þannig að einu svæðin sem eiga mögulega á vegabótum eru þau sem hafa stóriðjuáform. Ef maður þarf að hafa álver eða kísilver í sveitarfélaginu þurfa stjórnvöld að spyrja sig áleitinna spurninga. Það virðist vera pressa þingmanna að norðan að bæta samgöngur í nærsvæði stóriðjunnar. Það er fjarstæðukennt að bera saman ferðamannaveg, eins og Dettifossvegur er, og Hringveginn sem var tilbúinn til útboðs.“

Íbúar í Berufirði hafa boðað til mótmæla klukkan fimm í dag en þeir lokuðu veginum í botninum einnig á sunnudag. „Ég ætla ekki að halda aftur af fólk og fremur hvetja það en letja. Sveitarfélagið lætur ekki sitt eftir liggja í þessari baráttu, það er búið að vinna það mikið. Við getum ekki sætt okkur við þessa ákvörðun.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.