Dæmdur fyrir að tvíkjálkabrjóta mann með hnefahöggi

Héraðsdómur Austurland hefur dæmt karlmann í 45 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að veita öðrum hnefahögg í andlitið með þeim afleiðingum að sá síðarnefndi tvíkjálkabrotnaði. Sá brotlegi taldist eiga sér málsbætur en þær réttlættu ekki gjörninginn.

Atvikið átti sér stað í heimahúsi í ónefndu bæjarfélagi að loknu eftirpartýi um miðjan nóvember í fyrra. Játning liggur fyrir í málinu en sá brotlegi bar við að um neyðarverk hefði verið að ræða. Mennirnir tveir þekktust ekki fyrir atburðinn.

Ákærði lá á tungusófa í stofu hússins þegar brotaþoli kom inn í rýmið og hóf að sparka í eða traðka á ákærða. Hann bað viðkomandi um að láta af háttalagi sínu og lét hann vita að ella myndi hann slá til baka.

Ákærði segir brotaþola þá hafa lyft höndum og virst tilbúinn til átaka. Hann hafi orðið hræddur við og orðið fyrri til að slá frá sér. Eitt högg með hægri hnefa til andlitið vinstra megin hafi orðið til þess að brotaþoli tvíkjálkabrotnaði og steinrotaðist.

Ákærði og annar maður, sem hafði verið í hinum enda sófans meðan á látunum stóð, kölluðu síðar til sjúkraliða og lögreglu nokkru síðar þegar þeir áttuðu sig á að brotaþoli væri rotaður og meiddur. Í skýrslu lögreglu segir að brotaþoli hafi verið lítt viðmælandi vegna ölvunar auk þess sem hann hafi kvartað undan sársauka. Að lokinni skoðun á heilsugæslustöð var hann fluttur til Reykjavíkur með sjúkraflugi. Hann mundi nær ekkert eftir eftir atburðum næturinnar. Sá brotlegi hafi hins vegar verið rólegur og ekki áberandi ölvaður.

Ákærði ber því við að hafa heyrt af árásargirni brotaþola, til að mynda hafi hann gengið um bæjarfélagið með sveðju. Sá síðarnefndi neitaði þeirri sögu. Lögregluþjónn, sem bar vitni fyrir dóminum, staðfesti að höfðu hefðu verið afskipti af honum með sveðju en henni hefði ekki verið beint að neinum.

Ákærði hélt því einnig fram að hann hefði mátt þola einelti í æsku. Hann hefði náð sér upp úr því og ekki verið tilbúinn að láta traðka frekar á sér. Hann flutti úr bæjarfélaginu eftir árásina.

Þriðji maðurinn studdi frásögn ákærða um að brotaþoli hefði að ósekju veist að honum þar sem hann lá og byrjað að traðka allharkalega á honum. Hann fylgdist þó lítið með atburðarásinni enda var hann í símanum meðan henni stóð. Fjórði maður í stofunni svaf ölvunarsvefni bæði meðan árásinni stóð og eftir að lögreglu bar að garði.

Dómari féllst á að spörk brotaþola í ákærða hefðu verið tilefnislaus en af þeim hefðu ekki hlotist alvarlegir áverkar. Með hliðsjón af því að annar maður var á vettvangi og ákærði nýtti sér ekki tækifæri til að víkja af vettvangi teldist hann ekki hafa verið í slíkri hættu að hann gæti gripið til neyðarvarnar.

Hann var því dæmdur í 45 daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára. Þá var honum gert að greiða brotaþola, sem var á fljótandi fæði í mánuð eftir árásina, hálfa milljón króna í miskabætur og 300.000 krónur í málskostnað. Þá var honum gert að greiða 700.000 krónur í sakarkostnað sem var nær alfarið laun skipaðs verjanda hans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.