Dæmdur fyrir að sparka í höfuð lögreglumanns

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann í 90 daga skilorðsfundið fyrir að sparka í höfuð lögreglumanns við skyldustörf. Maðurinn glímdi við andlega erfiðleika þegar atvikið átti sér stað.

Það var á virkum degi vorið 2019 sem nágranni mannsins mætti honum á ferðinni, ölvuðum og illa til reika, skólaus og á náttfötunum. Nágranninn keyrði manninn að heimili hans og hafði samband við foreldra hans og bróður.

Þau ákváðu að hringja í lögreglu og óska eftir aðstoð, enda hafði maðurinn glímt við andlega erfiðleika og var meðal annars með sjálfsvígshótanir.

Frá vinnu í viku

Tveir lögreglumenn voru á ferðinni í bæjarfélaginu. Þeir brugðust við neyðarkallinu með hraði og héldu að heimilinu. Þar var maðurinn á ferli og sýndi þeim ógnandi tilburði sem varð til þess að hann var handjárnaður og færður inn í lögreglubíl.

Annar lögreglumannanna settist í ökumannssætið en hinn við hlið mannsins í aftursæti á meðan beðið var eftir að foreldrarnir kæmu heim. Skömmu eftir að þeir komu á vettvang náði maðurinn að sparka frá sér og setja vinstri fótinn í andlit lögreglumannsins sem sat í framsætinu. Snaraðist sá út úr bílnum og náði í bensli til að binda saman fætur mannsins.

Maðurinn var færður í fangaklefa þar sem hann lét áfram ófriðlega. Læknir kom tveimur tímum síðar. Um kvöldið fékk maðurinn róandi og var síðan látinn laus morguninn eftir. Í framburði læknis kemur fram að maðurinn hafi sýnt einkenni geðrofs en hann hafnað læknishjálp.

Lögreglumaðurinn sem fyrir högginu varð kvaðst hafa fundið fyrir höfuðverk og eymslum í hálsi í kjölfarið. Samkvæmt skýrslu læknis sem skoðaði hann voru áverkar eftir sparkið ekki áberandi en þó mátti finna fyrir bólgu og roða í húð. Lögreglumaðurinn var frá vinnu í viku eftir atvikið.

Mundi ekkert

Maðurinn sagðist ekkert muna eftir atvikinu, né heldur að hafa verið handtekinn né færður inn í lögreglubílinn. Það væri meðal annars vegna ölvunaráhrifa. Að öðru tjáði hann sig ekki frekar um sakarefnið.

Hann krafðist hins vegar sýknu á þeim forsendum að þær sakir sem á hann væru bornar væru rangar og ósannaðar. Þá væri væri framburður lögregluþjónanna misvísandi og í andstöðu við framburð annarra vitna. Að auki hefði ekki verið kveikt á myndavélabúnaði bílsins.

Allþungt högg

Ekkert þeirra vitna sem stóð við bílinn þegar atvikið átti sér stað sá sparkið. Öllum ber saman um að viðkomandi hafi verið í annarlegu ástandi, ölvaður og látið afar ófriðlega enda sagði eitt vitnið að ófremdarástandinu hefði fyrst linnt þegar maðurinn var færður í lögreglubifreiðanna.

Lokaðar bíldyr og skyggðir gluggar gerðu þessum vitnum hins vegar erfitt með að sjá inn í bílinn. Reyndar er það atriði sem helst virðist deilt um í dóminum er hvort allir gluggar bílsins hafi verið lokaðir, það fullyrtu lögreglumennirnir en vitnin héldu sum öðru fram.

Lögreglumaðurinn, sem sat við hlið mannsins í aftursætinu, sá hins vegar hæl mannsins lenda í vanga félaga síns í framsætinu og sagði höggið hafa verið allþungt. Þá taldi dómurinn að upptaka úr búkmyndavél lögregluþjónsins í framsætinu bæði styðja framburð lögreglumannanna um atburðarásina í heild, sem og höggið. Þar kippist myndavélin til og lögreglumaðurinn lætur vita af því að sparkað hafi verið í sig.

Töluvert alvarleg árás

Dómurinn mat framburð lögregluþjónanna skýran og trúverðugan auk þess sem hann væri studdur upptökum úr myndavélinni og læknisskýrslunni. Önnur gögn eða framburður vitna hnekkti því. Taldi dómurinn því sannað að maðurinn hefði sparkað berfættur í höfuð lögreglumanns við skyldustörf. Dómurinn sýknaði manninn hins vegar af ákæru um að hafa sparkað í háls lögreglumannsins þar sem hún væri ósönnuð.

Niðurstaðan var 90 daga fangelsi þar sem árásin hefði verið töluvert alvarleg. Dómurinn taldi þó rétt að skilorðsbinda refsinguna þar sem maðurinn hefði glímt við vanheilsu þegar atvikið átti sér stað, sem hann hefði nú leitað sér meðferðar við. Að auki var maðurinn dæmdur til að greiða rúmlega hálfa milljón króna í sakarkostnað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar