Dæmdur fyrir að ráðast á sambýliskonu sína fyrir framan börn hennar

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt karlmann á fertugsaldri til tveggja mánaða skilorðsbundinnar refsingar fyrir að kýla sambýliskonu sína í handlitið. Ungar dætur konunnar urðu vitni að árásinni.


Í ákæru segir að maðurinn hafi ráðist að konunni á heimili þeirra „slegið hana nokkur högg með flötum lófa í fæturna þar sem hún lá á dýnu á gólfinu. Síðan slegið hana tvö hnefahögg og eitt högg með flötum lófa í höfuðið, þar sem hún lá í rúmi í svefnherbergi.“

Afleiðingar árásarinnar voru þær að hún hlaut kúlu á hægra gagnauga, mar á hægri kjálka, bólgu og mar á hægri sköflung, mar og eymsli á hægri úlnlið og bólgu og mar á vinstri vísifingur.

Parið mætti saman til þingfestingar málsins og upplýstu dóminn um að þau hefðu nýlega gengið í hjúskap en voru í sambúð er atvikið átti sér stað.

Í rannsóknarskýrslu lögreglu kemur fram að dætur konunnar á barnsaldri hafi verið í íbúðinni þegar árásin átti sér stað og urðu vitni að henni.

Karlmaðurinn játaði brotið en sagðist takmarkað muna eftir atburðinum sökum ölvunar. Við yfirheyrslu hjá lögreglu kvaðst hann þó muna eftir að hafa eyðilegt sjónvarp á heimilinu og bar við afbrýðissemi sem tengdist konunni.

Dómurinn telur játningu mannsins horfa honum til mildunar auk þess sem hann hefur ekki áður gerst sekur um refsivert brot.

Dómurinn telur hana hins vegar tilefnislausar og horfir sérstaklega til þess við ákvörðun refsingar að árásin átti sér stað fyrir framan börn. Þá hafi konan hlotið áverka víða um líkamann þótt þeir hafi ekki verið alvarlegir.

Ekki þykir ástæða til að virða tengsl parsins manninum til refsiþyngingar en nýtilkomið hjónaband skiptir engu máli við ákvörðun hennar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.