Charisma verður nýr Jón Kjartansson

Eskja hf. tilkynnti í gærkvöldi um að fyrirtækið hefði gengið frá kaupum á nýju uppsjávarveiðiskipi, Charismu frá Lerwick á Hjaltlandseyjum. Hún kemur í stað Jóns Kjartanssonar.


„Tilgangur kaupanna er að endurnýja Jón Kjartansson en hann er kominn til ára sinna auk þess sem skipið er ekki útbúið vacuum-dælingu til að geta landað í nýja uppsjávarfrystihúsið.

Eskja þarf að eiga stórt og öflugt uppsjávarskip til að geta veitt kolmunna og Charisma uppfyllir þau skilyrði einnig. Þetta er lítið notað skip og vel útbúið,“ segir Páll Snorrason, fjármálastjóri Eskju.

Kaupin eru hluti af breytingum á rekstri Eskju og byggingu nýs uppsjávarfrystihúss en í haust fékk fyrirtækið afhentan nýjan Aðalstein Jónsson. Hinni nýi Jón Kjartansson verður afhentur Eskju í byrjun júlí og stefnt er á að skipið fari til makríl veiða í byrjun ágúst.

Charisma er 70,7 metrar á lengd og 14,5 metrar á breidd. Aðalvél skipsins er MAK 6000 kw og 8160 hestöfl. Skipið ber 2.200 rúmmetra í 9 tönkum með RSW kælingu.

Skipið er hannað af Skipteknisk og smíðað í Flekkafjord skipasmíðastöðinni í Noregi. Það var afhent eigendum sínum á Hjaltlandseyjum árið 2003.

Jón Kjartansson hefur verið á söluskrá síðustu mánuði og verður það áfram. Skipið var smíðað í Danmörku árið 1978.

Þá hefur Eskja gengið frá sölu á gamla Aðalsteini Jónssyni til grænlenska félagsins Arctic Prime Fisheries sem Brim hf. á þriðjungs hlut í og hefur skipið þegar verið afhent.

Síðar á árinu fær Eskja Qavak upp í kaupin sem fær nafnið Guðrún Þorkelsdóttir. Qavak er smíðað í Noregi árið 1999 og hét Vendla áður áður en það var selt til Grænlands fyrir tveimur árum. Það er 1773 tonn, 68,1 metri á lengd og 12,6 metrar á breidd.

Nánari tækniupplýsingar um Charismu
Nánari tækniupplýsingar um Qavak

Charisma, nýr Jón Kjartansson hlaðin af síld. Mynd: Ronnie Robertsson/CC 2.0

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.