Byrjar fundaferð um orkumál á Egilsstöðum

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, mun á næstu vikum halda opna fundi víðs vegar um land þar sem fjallað verður um orkumál og verkefnin framundan. Fyrsti fundurinn verður haldinn á Egilstöðum næsta mánudagskvöld.

Orkumál eru meðal áherslumála endurnýjaðrar ríkisstjórnar Íslands. Samkvæmt tilkynningu mun Guðlaugur Þór fjalla um stöðuna í orkumálum og hvaða árangur hafi náðst síðustu tvö ár.

Einnig verður fjallað um áskoranir næstu ára, viðbragðsaðgerðir stjórnvalda í orkumálum fyrir næstu mánuði og ár, sem og þau mörgu mál sem eru á döfinni næstu misseri.

Samkvæmt nýbirtri orkuspá Orkustofnunar 2030-2050 er gert ráð fyrir að næstu ár eigi eftir að verða krefjandi í raforkukerfinu og að nýtt framboð raforku mæti ekki aukinni eftirspurn fyrr en mögulega árið 2027.

Þá hefur ráðherra nýverið skipað vinnuhóp til að skoða framtíð rammaáætlunar. Formaður hans er Hilmar Gunnlaugsson, lögmaður á Egilsstöðum.

Að lokinni framsögu ráðherra verður opnað fyrir umræður. Fundurinn á Egilsstöðum er sá fyrstu í væntanlegri hringferð Guðlaugs Þórs um orkumál. Hann hefst klukkan 17:15, mánudaginn 22. apríl og verður haldinn á Berayja hótelinu á Egilsstöðum.

Fundurinn var upphaflega auglýstur kl. 20:00 en var færður framar vegna leiks Hattar og Vals í úrslitakeppni Íslandsmóts karla í körfuknattleik.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.