Byrja að mæla meðalhraða í Norðfjarðargöngum á þriðjudag

Búnaður sem mælir meðalhraða þeirra sem aka í gegnum Norðfjarðargöng verður gangsettur á hádegi á þriðjudag. Slíkur búnaður hefur ekki verið notaður áður hérlendis en stefnt er á að koma honum upp víðar.

Svo að segja síðan göngin voru opnuð hefur verið stefnt að því að mæla meðalhraða ökutækja. Nokkuð er síðan búnaðurinn var kominn upp, en nú hann verið kvarðaður og tekinn út af vottunaraðila.

Til þessa hefur aðeins verið notast við punkthraðaeftirlit, þar sem myndavél mælir hraða bíl á ákveðnum punkti og myndar þá sem fara of hratt, eins og í Fáskrúðsfjarðargöngunum.

Meðalhraðabúnaðurinn reiknar hve lengi bíll er að fara milli tveggja myndavéla og reiknar út meðalhraða. Vegagerðin rekur búnaðinn en lögreglan vinnur úr göngum og sektar þá sem keyra of hratt.

Öll gögn eru dulkóðuð og myndum af þeim sem keyra á löglegum hraða eytt sjálfkrafa. Merkt er með skiltum þar sem eftirlit sem þetta er.

Auk Norðfjarðarganganna verður slíkur búnaður á veginum milli Grindavíkur og Bláa lónsins. Stefnt er að því að koma meðalhraðamyndavélakerfi upp víðar, einkum í jarðgöngum og vegköflum þar sem slys eru tíð. Hve hratt það gengur ræðst af fjárveitingum.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að góð reynsla sé af slíkum búnaði í Noregi. Samkvæmt skýrslu frá 2014 fækkaði slysum með meiðslum á fólki um 12-22% og látnum um 49-54% á köflum með sjálfvirku meðalhraðaeftirlit. Tölurnar taka bæði til vegakaflans auk þriggja kílómetra út frá hvorri myndavél.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.