Byggir dagskrána upp út frá þátttöku gesta

„Það verður rosalega mikið um að vera og þetta verður virkilega skemmtilegt. Dagskráin er afar fjölbreytt og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi,“ segir Elísabet Reynisdóttir, skipuleggjandi Vopnaskaks sem hefst með Bustarfellsdeginum þann 18. júní og stendur sleitulaust til sunnudagsins 25. júní.



„Helsta nýbreytnin er sú að ég vænti þess að íbúar og gestir taki virkan þátt í dagskránni en hún er byggð upp með það að markmiði. Fólk þarf að virkja kraftinn sinn og gíra sig upp í það að „gera og njóta“ í stað þess bara að „mæta og njóta“ en svona hátíð byggist ekki bara á því að bíða og sjá hvað gerist, heldur koma og taka þátt. Það verða daglegir menningarviðburðir á borð við tónleika, lista- og ljósmyndasýningar. Við ætlum að hittast og hreyfa okkur saman, hlusta á uppbyggilega fyrirlestra, fara á jóganámskeið, í fjallgöngu, á golfmót, í hlaupatúra og jeppaferðir. Við förum í miðnæturgöngur og miðnætursund svo eitthvað sé nefnt, að ógleymdum stórtónleikum og stórdansleik laugardaginn 24. júní,“ segir Elísabet.

Stórdansleikur fyrir allar kynslóðir
Ekkert Hofsball verður í ár og segir Elísabet það hafa hlotið þónokkra gagnrýni, helst hjá yngri kynslóðinni. „Það verður sveitaball að ári en mig langaði að breyta til í ár og hafa ball þar sem allar kynslóðir geta skemmt sér saman á, eins og böllin sem ég man á Vopnafirði í gamla daga. Það er ég sannfærð um að verður hægt í ár en í Miklagarði munu þau Björgvin Halldórsson, Pálmi Gunnarsson, Stefanía Svavarsdóttir og Eyþór Ingi Gunnlaugsson trylla lýðinn og skemmta öllum konunglega ásamt hljómsveit Tomma Tomm.“

Bærinn fyllist af fólki og fjöri
Elísabet segist eiga von á að brottfluttir Vopnfirðingar haldi heim á leið og taki þátt í gleðinni. „Það er alltaf mikið um árgangamót af ýmsu tagi og mér heyrist að það verði sérstaklega mörg slík í ár, þannig að bærinn fyllist af fólki og fjöri. Tjaldstæðið er tilbúið og hótel og veitingahús munu vera dugleg að bjóða upp á ýmis spennandi tilboð þennan tíma. Ég vil samt hvetja fólk til þess að panta miða á tónleikana á Tix.is en það eru aðeins 250 til 300 manns sem komast að og það verður fljótt að fyllast. Ég vil líka hvetja alla Austfirðinga til þess að taka rúntinn og upplifa þessa skemmtun með okkur.“

Aðspurð hvort það sé eitthvað eitt frekar en annað sem hún er spenntust yfir í tengslum við Vopnaskakið segir Elísabet: „Þetta verður bara allt svo spennandi og skemmtilegt. Það er þó alveg magnað að sjá sólina koma upp klukkan þrjú að nóttu í bænum en það er alveg einstakt að upplifa Jónsmessu á Vopnafirði.“

Hér má fylgjast með undirbúningi hátíðarinnar. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.