Byggingarkranarnir hafa fært sig of nálægt Vatnsmýrinni

Frambjóðendur í Norðausturkjördæmi virðast sammála um að illa hafi staðið að lokun svokallaðrar neyðarbrautar á Reykjavíkurflugvelli. Sem fyrst verði að opna slíka braut í Keflavík til að tryggja sjúkraflug.


Spurt var um afstöðu frambjóðenda til neyðarbrautarinnar á framboðsfundi sem Austurfrétt/Austurglugginn stóðu fyrir í Valaskjálf í gær.

„Ég er hræddur um að neyðarbrautarmálið sé tapað. Það er óskiljanlegt að einn aðili skuli hafa getað tekið ákvörðun fyrir hönd ríkisstjórnarinnar,“ sagði Sigurður Eiríksson frá Dögun.

„Hafi þeir skömm fyrir sem stóðu að því að hún yrði lögð niður,“ sagði Einar Brynjólfsson frá Pírötum.

„Vatnsmýrin hefur verið skipulögð með fótunum. Meðan menn hafa talað hafa byggingakranarnir fært sig nær og eru nú of langt komnir þannig að færa verður brautina til Keflavíkur.“

Fram kom í umræðum á Alþingi í síðustu viku að áætlaður kostnaður við opnun brautar í sömu stefnu og lokað var á Reykjavíkurflugvelli í sumar kosti 280 milljónir. Ríkissjóður hafi þegar fengið 440 milljónir fyrir landið auk hlutdeildar í byggingarétti.

Steingrímur J. Sigfússon, vinstri grænum, sagðist telja heildarkostnað við brautina vera um einn milljarð króna.

Logi Einarsson úr Samfylkingunni sagði að byggja yrði neyðarbraut sem fyrst í Keflavík. „Stjórnvöld lofuðu að það yrði gert.“

Preben Jón Pétursson, Bjartri framtíð, kallaði það „sorglegt getuleysi núverandi stjórnvalda að vera ekki löngu búin að klára neyðarbrautina.“

Njáll Trausti Friðbergsson, Sjálfstæðisflokki, hefur lengi verið framarlega í hópi þeirra sem berjist fyrir framtíð Reykjavíkurflugvallar. Hann sagði boðaða lokun hafa verið ástæðuan fyrri því að hann, í félagi við fleiri, hefði stofnað samtökin „Hjartað í Vatnsmýrinni“ fyrir þremur árum. Markmiðið væri að tryggja aðgengi landsbyggðarinnar að sjúkrastofnunum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Framsóknarflokki, efaðist um lögmæti lokunarinnar. „Ég er þeirrar skoðunar að samningur ríkisins um eftirgjöf á landinu standist ekki lög.“

Hlusta má á fundinn í heild sinni hér að neðan. Beðist er afsökunar á gæðunum en upp kom bilun í upptökubúnaði.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.