Búið að stöðva olíulekann úr Drangi

Köfurum frá varðskipinu Þór tókst í gærkvöldi að stöðva alveg olíulekann úr togskipinu Drangi í Stöðvarfjarðarhöfn og fylla í öll opin göt. Varðskipið er nú á leið frá Stöðvarfirði.

Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir að köfurunum hafi þar að auki tekist að ganga þannig frá Drangi að aftan að engin hætta er á að skipið reki frá bryggju.

„Þór var á Stöðvarfirði í nótt en sigldi þaðan í morgun,“ segir Ásgeir. „Það er núna í höndum tryggingarfélags skipins hvernig framhaldinu verður háttað með björgun skipsins.“

Aðspurður um hvort kafararnir hafi komið auga á nokkuð sem skýrt getur þetta óhapp segir Ásgeir að ekki hafi verið minnst á slíkt í skýrslu frá varðskipinu í morgun.

Eins og fram hefur komið í fréttum hér á austurfrett.is er von á mönnum frá tryggingarfélagi Drangs til Stöðvarfjarðar í dag þar sem staðan verður metin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.