Búið að opna fyrir umferð á nýja veginum yfir Berufjörð

Opið hefur verið fyrir umferð um nýjan veg í botni Berufjarðar síðan á miðvikudag. Á næstunni verður lokið við framkvæmdir á mikið endurbættum vegum um Njarðvíkurskriður og fyrir botni Skriðdals.

„Jú, það eru allir glaðir með þennan áfanga,“ segir Sveinn Sveinsson um opnunina á veginum yfir Berufjörð.

Framkvæmdum við veginn er að fullu lokið og hann var opnaður almenningi seinni part miðvikudags. Formleg opnun verður þó ekki fyrr en miðvikudaginn 14. ágúst.

Á ýmsu hefur gengið við vegagerðina og er opnunin ári á eftir áætlun vegna mikils sigs í firðinum. Sveinn segir að vegurinn sé ekki hættur að síga en ástandið sé orðið allt annað en fyrir ári.

Til að bregðast við möguleg sigi var vegurinn byggður 20 sm hærri en ella. Slíkt er ekki óalgegnt þegar farið er yfir svæði þar sem hætta er á sigi, svo sem mýrlendi. „Það má búast við að hann sígi meira en það verður lagfært þegar þess þarf. Við sjáum hvernig þetta þróast.“

Fleiri nýir vegir verða opnaður eystra á næstunni. Þannig er búið að leggja malbik á þrjá kílómetra af sex í botni Skriðdals og til stendur að leggja á þá sem eftir eru fyrir mánaðarmót. Þá á nýr vegur um Njarðvíkurskriður einnig að klárast í mánuðinum.

Áfram verður svo haldið með leiðina til Borgarfjarðar því samningar standa yfir við Héraðsverk um nýjan veg yfir Vatnsskarð. Fyrirtækið átti eina tilboðið í verkið og var það nokkuð yfir kostnaðaráætlun. Til að lækka það verður einhverjum verkforsendum breytt.

Héraðsverk er þó að hefja undirbúning við efnisvinnslu þar, en samkvæmt upphaflega tilboðinu átti hún, sem og fyllingar og ræsagerð að klárast í ár. „Það þarf að gera miklar fyllingar, einkum Héraðsmegin. Þar er bratt og verður það svo sem áfram,“ segir Sveinn. Þá var í júlí lagt neðra lagið á 3 km langan kafla við Droplaugarstaði í Fljótsdal.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.