Brotthvarf Steingríms opnar sæti ofarlega á lista VG

Vopnfirðingurinn Kári Gautason, núverandi framkvæmdastjóri þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, hefur ákveðið að sækjast eftir sæti ofarlega á framboðslista flokksins í Norðausturkjördæmi í næstu þingkosningum. Núverandi oddviti listans, Steingrímur J. Sigfússon, tilkynnti um helgina að hann sæktist ekki eftir endurkjöri.

Bæði Kára og Steingrímur tilkynntu um ákvörðun sína á aðalfundi kjördæmisráðs VG sem haldinn var um helgina í fjarfundi. Steingrímur hefur setið á Alþingi fyrir Norðurlandskjördæmi eystra og síðar Norðausturkjördæmi frá árinu 1983.

Hann tók fyrst sæti á framboðslista árið 1978 og hefur leitt framboðslista í síðustu 11 þingkosningum. Steingrímur sat fyrst á þingi fyrir Alþýðubandalagið en frá 1999 fyrir VG, sem hann átti stóran þátt í að stofna.

Á sínum langa þingferli hefur Steingrímur verið landbúnaðar- og samgönguráðherra, fjármála, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra, efnahags og viðskiptaráðherra og atvinnuvega og nýsköpunarráðherra.

Flokkurinn á tvo þingmenn í kjördæminu, en í öðru sætinu á eftir Steingrími síðast var Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir frá Ólafsfirði, sem er formaður þingflokksins. Í þriðja sæti var síðan Ingibjörg Þórðardóttir, framhaldsskólakennari í Neskaupstað.

Í morgun greindi Vopnfirðingurinn Kári Gautason frá því á Facebook-síðu sinni að hann hefði gefið það út á fundinum um helgina að hann myndi gefa kost á sér ofarlega á lista VG í kjördæminu í kosningunum 25. september á næsta ári.

Kári, sem er alinn upp á Grænalæk í Vopnafirði, starfar í dag sem framkvæmdastjóri þingflokks VG en hann er meðal annars fyrrverandi ráðunautur og hefur stundað meistaranám í búfjárkynbótum.

Helstu mál sem ég mun setja á oddinn tengjast auðlindamálum, sjávarútvegi og landbúnaði. Ég vil slá vörð um þau lífsgæði sem eru fólgin í því að lifa og starfa á landsbyggðinni. Til þess þarf að leiðrétta ójöfnuð í samgöngu-og flutningsmálum, bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu enn frekar og gera alvöru úr því að innleiða störf án staðsetningar,“ segir hann í yfirlýsingu sinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.