Bræla og leiðindaveður á miðunum

Bræla og leiðindaveður er á miðunum sem togarar Síldarvinnslunnar eru á í dag. Togararnir eru að reyna að veiða annað en þorsk þessa stundina.

Þetta kemur fram á vefsíðu Síldavrinnslunnar. Þar segir að ísfisktogararnir Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu allir í gærdag. Gullver landaði á Seyðisfirði en Vestmannaey og Bergey í Neskaupstað.

Afli Gullvers var 95 tonn en afli Vestmannaeyjar rúm 50 tonn og Bergeyjar 62 tonn. Öll skipin héldu út til veiða á ný strax að löndun lokinni. Gert er ráð fyrir að Vestmannaey og Bergey haldi suður fyrir land og verður lögð áhersla á að skipin veiði annað en þorsk á næstunni.

Á vefsíðunni er rætt við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra á Gullver í morgun er togarinn var staddur í brælu úti í Seyðisfjarðardýpi.

„Síðasti túr gekk alveg þokkalega. Við byrjuðum að vísu í Berufjarðarálnum í leit að karfa en þar var sannast sagna ekkert að hafa. Síðan vorum við mest á Fæti og Herðablaði og þar fengum við þorsk og einnig dálítið af ýsu. Nú erum við í leiðindaveðri og þannig verður það í dag, en síðan mun það væntanlega lagast,“ segir Rúnar.

Einnig var rætt við Egil Guðna Guðnason stýrimann á Vestmannaey sem segir að eftir löndunina í gær var haldið suður eftir.

„Nú erum við í Sláturhúsinu úti fyrir Mýrunum í leiðindaveðri að reyna að veiða kola. Hér er ástæða til að reyna enda erum við í skjóli af jöklinum. Áformað er að leggja áherslu á annað en þorsk næstu daga. Bergey er á alveg sama róli og við,“ segir Egill Guðni.

Mynd: Síldarvinnslan/Egill Guðni Guðnason.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.