Bólusetning hafin á Austurlandi

Þórarinn Baldursson, læknir hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, varð á hádegi fyrstur Austfirðingur til að vera bólusettur gegn Covid-19 veirunni.

Það var Bríet Magnúsdóttir, sérnámshjúkrunarfræðingur, sem bólusetti Þórarinn í Giljasal heilsugæslunnar á Egilsstöðum. Forgangshópar í bólusetningu eru heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir bráðaþjónustu og íbúar á hjúkrunarheimilum, sem bólusettir verða á heimilum sínum. Endurtaka þarf bólusetninguna að þremur viknum liðnum til að tryggja virkni bóluefnisins.

Um 170 skammtar af bóluefni komu austur með morgunfluginu. Það þarf að geymast við -80°C, sem er hjá Distica í Garðabæ. Bóluefnið er þýtt upp fyrir sendingu en efnið sem kom austur í morgun var tekið úr frysti klukkan fjögur í nótt.

Að lokinni bólusetningunni þarf sá bólusetti að bíða í 20 mínútur til að kanna ofnæmisviðbrögð en þau eru samkvæmt rannsóknum einstaklega fátíð.

Bólusett verður á starfssvæði HSA í dag og á morgun. „Það er alveg frábært og hreint stórkostlegt að bóluefnið sé loksins komið gegn þessari veiru,“ sagði Guðjón Hauksson forstjóri HSA í samtali við Austurfrétt í morgun.

Til landsins bárust alls 10.000 skammtar sem duga til að bólusetja 5.000 manns. Bóluefnið er frá Pfizer/BionNTech og notast við mRNA erfðaefni. Það lætur ekki mikið yfir sér. Eins og Vopnfirðingurinn Páll Þórðarson, efnafræðingur og prófessor við háskóla í Sydney í Ástralíu, benti á í færslu á Facebook í gær fengu Íslendingar alls tvo kassa af bóluefninu með samanlagt 0,3 grömmum af erfðaefninu. Það samsvarar þyngd eins krækibers eða 1/10 af teskeið af sykri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar