Bólusetning hafin á Austurlandi

Þórarinn Baldursson, læknir hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, varð á hádegi fyrstur Austfirðingur til að vera bólusettur gegn Covid-19 veirunni.

Það var Bríet Magnúsdóttir, sérnámshjúkrunarfræðingur, sem bólusetti Þórarinn í Giljasal heilsugæslunnar á Egilsstöðum. Forgangshópar í bólusetningu eru heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir bráðaþjónustu og íbúar á hjúkrunarheimilum, sem bólusettir verða á heimilum sínum. Endurtaka þarf bólusetninguna að þremur viknum liðnum til að tryggja virkni bóluefnisins.

Um 170 skammtar af bóluefni komu austur með morgunfluginu. Það þarf að geymast við -80°C, sem er hjá Distica í Garðabæ. Bóluefnið er þýtt upp fyrir sendingu en efnið sem kom austur í morgun var tekið úr frysti klukkan fjögur í nótt.

Að lokinni bólusetningunni þarf sá bólusetti að bíða í 20 mínútur til að kanna ofnæmisviðbrögð en þau eru samkvæmt rannsóknum einstaklega fátíð.

Bólusett verður á starfssvæði HSA í dag og á morgun. „Það er alveg frábært og hreint stórkostlegt að bóluefnið sé loksins komið gegn þessari veiru,“ sagði Guðjón Hauksson forstjóri HSA í samtali við Austurfrétt í morgun.

Til landsins bárust alls 10.000 skammtar sem duga til að bólusetja 5.000 manns. Bóluefnið er frá Pfizer/BionNTech og notast við mRNA erfðaefni. Það lætur ekki mikið yfir sér. Eins og Vopnfirðingurinn Páll Þórðarson, efnafræðingur og prófessor við háskóla í Sydney í Ástralíu, benti á í færslu á Facebook í gær fengu Íslendingar alls tvo kassa af bóluefninu með samanlagt 0,3 grömmum af erfðaefninu. Það samsvarar þyngd eins krækibers eða 1/10 af teskeið af sykri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.