Boðar hafnarframkvæmdir á Djúpavogi og Seyðisfirði

Meðal þeirra hafnarframkvæmda sem eru áætlaðar á næstu árum eru endurbygging Bjólfsbakka á Seyðarfirði og endurbygging stálþils á Djúpavogi.

Þetta kom fram í ávarpi sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti nýlega á ársþingi Hafnasambandsins, Fjallað er um málið á vefsíðu Stjórnarráðsins.

Sigurður Ingi segir að fjármagn til hafna og mikilvægra sjóvarna hafi verið stóraukið á kjörtímabilinu og síðast í tengslum við fjárfestingaátak ríkisstjórnarinnar í vor.

Í ár verður 1,6 milljarði króna varið til hafnaframkvæmda og 1,2 milljarðar eru settir í hafnir í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2021. Alls sé áætlað að verja tæpum sjö milljörðum króna á sex ára tímabili frá 2020-2025.

Ráðherra sagði að ýmis stór verkefni væru á teikniborðinu. Vegagerðin ynni að rannsóknum og undirbúningi mikilvægra framkvæmda sem eru til þess fallin að styrkja atvinnulíf og leiða til atvinnusköpunar í viðkomandi byggðalögum.

Sem fyrr segir er endurbygging stálþils á Djúpavogi m.a. vegna fiskeldis og endurbygging Bjólfsbakka á Seyðisfirði meðal þessara verkefna.

 „Mikilvægi hafna fyrir nýtingu sjávarauðlinda, millilandaviðskipti Íslands og ferðaþjónustu verður seint ofmetið. Þjónusta þeirra eru á margan hátt ómissandi hlekkur í að viðhalda og bæta lífskjör á Íslandi,“ segir Sigurður Ingi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar