Blak: Þrjár hrinur í upphækkun þegar Þróttur vann KA

Oddahrinu þurfti til og þrjár hrinur fóru í upphækkun þegar Þróttur vann KA í Mizunodeild karla í blaki í Neskaupstað á þriðjudagskvöld. Þjálfari liðsins ætlar að nýta mánaðarfrí sem framundan er í deildinni til að laga móttökurnar hjá liðinu.

„Hvílíkur leikur. Ég tapaði röddinni eins og þú heyrir,“ segir Ana Vidal, þjálfari liðsins.

Liðin mættust öðru sinni á stuttum tíma en KA vann leik liðanna á Akureyri á laugardag 3-0. Ana segir að móttaka Þróttar hafi verið helsti akkilesarhæll liðsins í báðum leikjunum. „Liðið spilaði vel í hávörn og sókn en ef móttakan er ekki í lagi verður erfitt að spila boltanum.“

Þróttur vann fyrstu tvær hrinurnar en með naumindum. Í fyrstu hrinunni var liðið 16-21 út af þegar Jorge Basualdo meiddist og inn í hans stóð kom hinn gamalreyndi Hlöðver Hlöðversson. „Hlöðver vann í raun hrinuna fyrir okkur. Uppgjafir hans ollu KA miklum vandræðum og kveiktu í liðinu.“

Í annarri hrinu var liðið 20-24 undir þegar Börkur Marinósson kom inn á. Hann átti góðar uppgjafir og Þrótti tókst að vinna hrinuna 27-25.

Þriðju og fjórðu hrinu vann KA 24-26. „Við fórum að spila betur þá þannig að hrinurnar voru jafnari en leikmennirnir virkuðu taugaóstyrkir,“ segir Ana.

Í oddahrinunni var jafnt upp í 8-8. Þá tók Þróttur við sér og vann 15-11. „Valgeir (Valgerisson) átti ekki sinn besta dag þannig ég tók hann út af í byrjun hrinunnar. Jorge var kominn aftur af stað og Mateo (Castrillo) skoraði flest stigin okkar. Liðið virkaði einbeittara og þá kláraðist leikurinn.

Við verðum að vinna í móttökunni. Við söknuðum Ragnars (Inga Axelssonar), hann verður ekki með okkur fyrr en í desember því hann er í heimsreisu. Þórarinn (Örn Jónsson) var betri en um helgina en hann vantar meira sjálfstraust.“

Næsti leikur liðsins er ekki fyrr en í mánuð. „Það er gott, þá höfum við tíma til að æfa. Það verða samt ekki margir heima vegna landsliðsverkefna næstu tvær helgar.“

Ana spilar jafnframt með kvennaliðinu sem vann Völsung fyrir rúmri viku og KA tvisvar 3-0 um helgina. „Við spiluðum virkilega vel á Akureyri, það eru trúlega bestu leikirnir sem Þróttur hefur spilað síðan ég kom hingað. Liðið var vel skipulagt og stemmingin í hópnum góð.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar