Blak: Mikilvægt að vinna KA til að komast í úrslitakeppnina

Þróttur vann KA í tveimur leikjum í efstu deild karla í blaki um helgina í Neskaupstað. Liðin berjast við Aftureldingu um sæti í úrslitakeppninni í vor.


KA byrjaði betur í fyrri leiknum á föstudagskvöld og vann fyrstu hrinuna 12-25. Gestirnir fóru einnig betur af stað í þeirri næstu en Þróttur snéri henni fljótt sér í vil og vann 25-23.

Þriðju hrinuna vann Þróttur 25-14 og þá fjórðu 25-20 eftir að hafa breytt stöðunni úr 13-16 í 21-17. Jorge Basualdo var stigahæstur Þróttara með 14 stig.

Liðin mættust aftur á laugardag og þann leik vann Þróttur 3-0 eða 25-19, 25-22 og 25-17. Jorge var aftur stigahæstur, að þessu sinni með 17 stig. KA liðið var vængbrotið en það var án Hristiyan Dimitrov, eins besta leikmanns deildarinnar.

Eftir leikina er Þróttur í þriðja sæti deildarinnar með 18 stig úr 11 leikjum, KA í fimmta með 11 stig eftir jafn marga leiki. Þar á milli er Afturelding með 14 stig en á leik til góða. Þessi lið virðast ætla að berjast um síðustu sæti í úrslitakeppninni en HK og Stjarnan eru í efstu tveimur sætunum.

„Við töpuðum tveimur mikilvægum leikjum gegn Þrótti Reykjavík fyrir jól og þessir sigrar koma okkur aftur á rétt ról. Það er ekkert hlaupið að því að komast í úrslitakeppnina en við reynum okkar besta,“ sagði Ana Vidal, þjálfari Þróttar eftir leikinn.

Hún sagði seinni leikinn hefði verið betri. Slök einbeiting hefði orsakað nokkur mistök í þeim fyrri.

„Mér finnst vanta andlegan styrk í liðið því þegar við gerum mistök fylgja oft önnur í kjölfarið eða að sá sem gerði mistökin er enn að hugsa um þau löngu síðar. Þetta verðum við að laga þótt ég viti ekki alveg hvernig við förum að því.“

Þá er liðið að fá til sín nýjan leikmann, Bjarka Benediktsson, frá Aftureldingu. „Hann verður vonandi með í næsta leik. Við vonum að hann bæti sóknarleikinn. Það hefur stundum skort upp á hann.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.