Blængur fær mest austfirskra skipa

Blængur NK er með hæst aflamark austfirskra skipa samkvæmt úthlutun Fiskistofu fyrir fiskveiðiárið 2017/18 sem hófst í síðustu viku.


Í hlut Blængs koma 5.663 þorskígildistonn sem skilar því í áttunda sætið á landsvísu með 1,5% af heildarúthlutuninni. Mestu er úthlutað til Sólbergs ÓF, 9.716 þorskígildistonnum.

Tæpur helmingur úthlutunar Blængs er í þorski en skipið er einnig með veglegar heimildir í karfa og ufsa. Skipið, sem keypt var til Síldarvinnslunnar í byrjun árs 2015, fékk aflaheimildir af ísfisktogurunum Bjarti og Barða. Bjartur var seldur til Íran í fyrra og Barði til Rússlands í sumar. Heimildum Barða var dreift á fleiri skip innan Síldarvinnslunnar, meðal annars Gullver.

Næstu austfirsku skip þar á eftir eru Ljósafellið á Fáskrúðsfirði með 4.592 tonn og Gullver á Seyðisfirði með 4.380 tonn. Heimildir þeirra eru að langmestu í þorski.

Af austfirskum höfnum fer mest til Neskaupstaðar, 11.400 þorskígildistonn eða 3% heildaraflans. Þar á eftir kemur Fáskrúðsfjörður með ríflega 6.650 tonn, Seyðisfjörður með 4.400 tonn og Eskifjörður með 4.100 tonn.

Samkvæmt samantekt Fiskistofu eru stærstu hafnirnar Reykjavík, Grindavík og Vestmannaeyjar og fyrrnefndu staðirnir hýsa einnig stærstu fyrirtækin. HB Grandi er stærst einstakra fyrirtækja með 9,5% úthlutunarinnar en það rekur öfluga vinnslu á Vopnafirði þar sem einn skipa þess, Venus NS, er skráð.

Sé horft til krókaaflamarksbáta er Sandfell, bátur Loðnuvinnslunnar með fimmtu hæstu úthlutunina, 1.860 þorskígildistonn. Þar skammt frá er Auður Vésteins frá Stöðvarfirði með 1.368 tonn.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.