Björn bæjarstjóri þakkaði fyrir skilning á nauðsynlegum aðgerðum til að taka á skuldum

bjorn_ingimars_17062012.jpg
Björn Ingimarsson notaði tækifærið í hátíðarræðu sinni við 17. júní hátíðarhöldin á Egilsstöðum í dag til að þakka fyrir skilning og samstarf sem hefði einkennt vinnu við að taka á skuldavanda sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs.
 
Björn sagði að uppbyggingaraðgerðir sem ráðist hefði verði í til að gera sveitarfélagið að vænlegum búsetukosti hefði kostað á mikla skuldsetningu. Verkefni kjörtímabilsins hefði verið að taka á henni. Það hefðu verið aðgerðir sem ekki séu „vænlegar til vinsælda en nauðsynlegar.“ Björn þakkaði „kjörnum fulltrúum, íbúum og starfsfólki“ sveitarfélagsins fyrir þann skilning sem það hefði sýnt við þessar kringumstæður.

Björn sagði samfélagið á Fljótsdalshéraði vissulega stórt á austfirska vísu en ekki það stórt að það hefði tapað einkenni minni sveitarfélaga sem einkennist af miklum félagsþroska. „Félagsleg einangrun eins og hún þekkist í borgarsamfélögum er nær óþekkt hér. Íbúarnir styðja hver við annan þegar þarf. Þetta eru verðmæti sem við skulum halda í.“

Björn var í dag viðstaddur sín fyrstu þjóðhátíð á Austurlandi síðan hann tók við starfi bæjarstjóra sumarið 2010. Hann sagðist hafa notað veðursældina sem rök gagnvart þeim yngstu í fjölskyldunni þegar flutningarnir voru yfirvofandi. Á það loforð hefði hann oft verið minntur síðasta sumar og verið „litinn hornauga“ þar sem efndirnar hefðu þótt litlar. 

„Veðursældin veður samt ekki aðeins mæld í hitastiginu heldur þeirri hlýju sem við gefum samfélaginu,“ sagði Björn að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.