Björgunarsveitir um nær allt Austurland á eftir þakplötum

Björgunarsveitir af nær öllu Austurlandi hafa sinnt verkefnum í dag sem tengjast miklu hvassviðri sem gengur yfir fjórðunginn. Víða hefur þurft að glíma við þakplötur á ferðinni.

Fyrst gekk í veðrið á Norðfirði og þar voru björgunarsveitarmenn úr Gerpi komnir af stað um klukkan átta í morgun. Þar hefur meðal annars þurft að glíma við þakplötur sem voru að fjúka af stórri skemmu á hafnarsvæðinu. Búið er að loka fyrir umferð um svæðið vegna þessa.

Á Seyðisfirði kom útkall um klukkan tíu eftir að rúða brotnaði á íbúðarhúsnæði. Þar hefur einnig þurft að takast á við þakplötur og vinnupalla.

Síðan hefur svo að segja hvert útkallið rekið annað hjá austfirskum björgunarsveitum.

Á Vopnafirði fauk gróðurhús, á Breiðdalsvík þakplötur af húsi og á Djúpavogi þakplötur og hurðir. Á Fljótsdalshéraði þurfti að hemja þakplötur á ferðinni á sveitabæ og á Fáskrúðsfirði hefur verið glímt við lausar þakplötur og brotnar rúður.

Á Eskifirði voru björgunarsveitir kallaðar út um klukkan hálf þrjú út af þakplötum og á Reyðarfirði er verið að glíma við þakplötur á svæði Stríðsárasafnsins.

Veðurspá um norðvestan ofsaveður virðist vera ganga eftir. Appelsínugul viðvörun er um allan fjórðunginn til klukkan 18 og gul fram yfir miðnætti.

Veðrið mun þó aðeins vera byrjað að ganga niður nyrst og innst á svæðinu, svo sem Héraði og Vopnafirði.

Samkvæmt tölum Veðurstofunnar var mesti meðalvindur á landinu í dag á Vatnsskarði eystra, 43 m/s um klukkan ellefu. Þar fór vindurinn upp í 50 m/s í hviðum.

Hærri tölur er að finna frá mælum Vegagerðarinnar. Við Streiti mældist 63,7 m/s hviða klukkan 12:50 og 60,9 m/s í Oddsskarði klukkustund síðar.

Sjórok í Neskaupstað í morgun. Mynd: Sveinn Zoega


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.