Bjartsýnn á byggingu nýs hjúkrunarheimilis

„Það er vaxandi þörf fyrir hjúkrunarrými í fjórðungnum og við leggjum áherslu á að næsta hjúkrunarheimili rísi á Norðfirði,“ segir Páll Björgvin Guðmundsson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.

Samkvæmt greiningu er vaxandi þörf fyrir hjúkrunar- og hvíldarrými fyrir aldraða í Fjarðabyggð auk endurnýjunar á hjúkrunardeild Fjórðungssjúkrahússins. Bæjarráð Fjarðabyggðar hefur samþykkt ályktun þess efnis að farið verði á leit við velferðarráðuneytið og ráðherra heilbrigðismála að hefja nú þegar undirbúning og framkvæmd á nýju hjúkrunarheimili í Neskaupstað. Bæjarráð og bæjarstjóri hafa á undanförnum vikum átt fundi með forráðamönnum heilbrigðisstofnunarinnar þar sem meðal annars hefur verið fjallað mikið um þörf fyrir aukin hjúkrunarrými i Fjarðabyggð og þá sér í lagi í Neskaupstað.

Fyrir liggur greining frá Guðjóni Haukssyni, forstjóra heilbrigðisstofnunar Austurlands, um málefni aldraðra á Austurlandi en þar kemur fram að þörf er á hjúkrunar- og hvíldarrými fyrir aldraða í sveitarfélaginu. Einnig að hjúkrunardeild heilbrigðisstofnunarinnar í Neskaupstað uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar eru til hjúkrunarheimila er varðar aðbúnað heimilisfólks og starfsmanna eða þau lágmarksviðmið sem Velferðarráðuneytið gefur út um aðbúnað fyrir slík heimili.

Guðjón segir að um leið og nýtt hjúkrunarheimili yrði byggt myndi skapast tækifæri á Fjórðungssjúkrahúsinu til að stórefla endurhæfingu, sem gerir einstaklingum þá mögulegt að búa lengur heima, auk þess sem sjúkrahúsið verði betur í stakk búið til þess að aðstoða enn frekar við fráflæðisvanda annarra sjúkrastofnana.

Ég hef nú þegar komið ályktuninni í hendur heilbrigðisráðherra og er þess fullviss að bygging á nýju hjúkrunarheimili verði hafin árið 2020,“ segir Páll Björgvin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.