Betra að senda einn lækni austur en marga sjúklinga suður

Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni eiga í vandræðum með að fá til sín og halda í lækna og annað fagfólk. Forsvarsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands segja yfirvöld skorta stefnu um sérfræðiþjónustu.


„Okkur vantar fagfólk, einkum lækna en líka aðrar stéttir,“ sagði Nína Hrönn Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá HSA, á íbúafundi á Egilsstöðum fyrir skemmstu.

Af hálfu stofnunarinnar hafa verið stigin skref til að reyna að tryggja sér fagfólk. Samstarf við skólana á svæðinu hefur verið aukið, enda sýna rannsóknir að þeir sem alast upp á svæðinu skila sér best til baka í störf hér þegar fram líða stundir. Þá er vonast til að ný miðlæg heilsugæslustöð á Reyðarfirði verði eftirsóknarverðari en einmenningshéruð.

Stjórnendur HSA hafa verið afar gagnrýnir á hversu illa gangi að koma sérfræðingum út á land, þeir vilji helst veita þjónustuna af skrifstofum sínum í Reykjavík.

„Það hefur skort stefnu yfirvalda um þjónustu sérfræðinga, einkum lækna. Það þarf að ákveða hvaða sérfræðiþjónusta er nærþjónusta, hvað á að að vera í hverjum fjórðungi.

Við höfum leitað eftir skýrum svörum þar um en ekki fengið. Við höfum bent á að það sé betra að senda einn mann til okkar. Við erum ágætlega tækjum búin, einkum í Neskaupstað.“

Þessa dagana er verið að ganga frá ráðningum tveggja sálfræðinga hjá HSA. Enginn slíkur hefur verið fastráðinn frá haustinu 2015 en auglýsingar skiluðu loks árangri nú. „Þegar við höfum ráðið í þær stöður þarf að fara í að byggja upp þjónustu við fólk með geðræn vandamál,“ sagði Nína.

Ekki tilbúnir í harkið

Austurland er ekki eini landshlutinn þar sem gengur illa að fá fagfólk til starfa. Sigrún Blöndal, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, sagði að fundað hefði verið með landlækni um málið og þau svör fengist að skorturinn væri viðvarandi um allt land.

„Reyknesingar fundu læknana sína eftir leit. Þeir reyndust vera verktakar í Stykkishólmi!

Það skortir fagfólk um allt land. Skortur á fagfólki er sú ógn steðjar að okkur. Við sjáum þetta líka á dýralæknunum, þeir vilja frekar vera á höfuðborgarsvæðinu og lækna smádýr níu til fimm frekar en að koma út á land í harkið. Það eru ekki allir eins og Hákon Hansson á Breiðdalsvík sem gert hefur 1400 keisaraskurði á rollum.“

Erfitt að kynna Austurland sem kost

Nína Hrönn bætti við að kynna þyrfti samfélagið í heild og markaðssetja fyrir heilbrigðisstarfsfólki. Undir það tók Hrönn Garðarsdóttir, læknir á Egilsstöðum.

„Mönnunarmálin eru dagleg spurning hjá okkur. Bæði íbúum og gestum fjölgar en læknum fækkar.

Það gengur æ verr að fá fólk til að koma og vera. Það er rómantískt að koma og vera mánuð á sumri eða yfir páska en það er erfiðra að fá fólk til að koma og byggja upp metnað og þjónustu. Á því eru örugglega margar skýringar en við höfum reynt að komast að því hverjar þær eru,“ sagði Hrönn.

Hún benti á að nám bæði hjúkrunarfræðinga og lækna taki sex ár og er þá ekki talið með sérfræðinám lækna. Á þessum sex árum fari læknarnir í fjóra og hálfan dag út fyrir höfuðborgarsvæðið.

„Það má velja Keflavík og Selfoss sem dreifbýli og keyra alltaf heim á kvöldin. Það er erfitt að kynna okkur sem kost.

Okkar sterkasta von er í fólki sem er alið upp á Austurlandi og veit hvernig er að búa utan höfuðborgarsvæðisins. Ég virðist vera eini kynlegi kvisturinn sem er alinn upp í borginni en flutti út á land. Það hefur enginn annar gert hvorki næstu tíu ár á undan né eftir mér.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.