Beljandi brugghús opnar í Mathöll Höfða

Beljandi brugghús opnar bar í Mathöllinni sem opnar á Höfða í Reykjavík í lok febrúar. Beljandi hóf starfsemi sína á Breiðdalsvík sumarið 2017 og hefur verið í stöðugum vexti síðan. „Við höfum lengi rætt það að opna bar í Reykjavík. Ég sá svo umfjöllun um Mathöllina á Höfða í Morgunblaðinu, en þar var gefið upp netfang fyrir þá sem væru áhugasamir um að taka þátt í því verkefni. Ég sendi póst og þetta varð lendingin, það var ekki flóknara en það. Á þeim tíma var enginn bar kominn inn í myndina hjá þeim þannig að við pössuðum vel inn í þetta,” segir Daði Hrafnkelsson, annar eigandi Beljanda brugghúss.

Mathöllin í Höfða verður svipuð þeim sem nýlega voru opnaðar á Hlemmi og Granda „Hugmyndafræðin er sú sama, margir ólíkir veitingastaðir undir saman þaki. Það er mín tilfinning að minna verði af ferðamönnum á Höfða, meira fólk í hverfinu sem sæki hana, eitthvað sem mér þykir mjög spennandi.“


Stefna á að koma bjórnum í vínbúðir í sumar
Beljandi hóf starfsemi á Breiðdalsvík sumarið 2017. „Þetta hefur verið afar lærdómsríkur tími og gengið vonum framar. Fyrsta sumarið náðum við ekki að framleiða nóg og bjórinn var alltaf uppseldur. Við stækkuðum brugghúsið og fórum úr 1200 lítrum á mánuði upp í 5000. Sumarið 2018 var það sama uppi á teningnum, við náðum ekki að framleiða nóg. Við teljum þó, með góðu skipulagi, að okkur takist það í sumar. Við áætlum einnig að byrja að tappa á dósir í vor svo bjórinn okkar komist í vínbúðirnar,“ segir Daði.


Öll framleiðsla mun áfram vera á Breiðdalsvík
Framleiðslan fer öll fram á Breiðdalsvík. „Við framleiðum allt á Breiðdalsvík og munum alltaf gera það. Markmiðið okkar hefur alltaf verið að búa til störf á Breiðdalsvík og það mun aldrei breytast. Framleiðslan hefur aukist stöðugt frá upphafi en hefur þó að mestu farið fram á sumrin. Vonandi förum við að ná að framleiða einnig á veturna og straumlínulaga þannig starfsemina,“ segir Daði, en fyrir utan hann og Elís Pétur Elísson, hinn eiganda Beljanda, hafa þeir verið með einn fastan starfsmann í vinnu allt árið og tvo á sumrin.

„Það er svo eitthvað smá af afleiddum störfum þó svo að það sé kannski ekki mikið enn sem komið er, við vonum auðvitað að með stækkuðu markaðssvæði þá getum við aukið þetta upp í tvö full störf allt árið og aukastarf allt sumarið. Við viljum vaxa „organískt“, við erum ekkert að flýta okkur heldur viljum gera vel.“


„Við mætum allsstaðar velvilja og áhuga“
Daði horfir spenntur fram á veginn varðandi nýja verkefnið. Hann segist hafa lært afar mikið á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun Beljanda. „Persónulega þykir mér gott að hafa séð og lært hve fólkið í kringum þetta og samfélagið á Breiðdalsvík og Austfjörðum öllum hefur tekið okkur vel og verið jákvætt, við mætum allsstaðar velvilja og áhuga, það hjálpar svo sannarlega til.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar