Bætt við stöðugildum til að mæta fjölgun leikskólabarna

Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs hefur samþykkt aðgerðir til að mæta fjölgun leikskólabarna í sveitarfélaginu á næsta skólaári. Ríflega 20 börn fædd á síðasta ári hefði vantað gæslu ef ekkert hefði verið að gert.


Að tillögu fræðslunefndar verður stöðugildum við Tjarnarskóg fjölgað um 1,5. Að auki verður mánaðarleg niðurgreiðsla til dagforeldra hækkuð um 25% frá og með sama tíma.

Þá hefur nefndinni verið falið að skoða áfram dagvistunarmöguleika í sveitarfélaginu með tilliti til þróunar næstu árin.

Til aðgerðanna er gripið vegna fyrirsjáanlegar fjölgunar á leikskólum. Í haust losnar alls 41 leikskólapláss á Egilsstöðum og Fellabæ. Börn sem fædd eru árið 2015 og hafa ekki enn fengið pláss njóta forgangs. Þau eru 24 talsins.

Börn sem fædd eru fyrir 1. september 2016 í sveitarfélaginu eru 41. Miðað við þetta hefðu 17 börn fædd árið 2016 fái pláss í haust en 24 verið eftir hefði ekkert verið að gert.

Yfir níutíu foreldrar barna fæddra 2015 og 2016 skrifuðu Fljótsdalshéraði í vetur bréf til að vekja athygli á stöðunni. Við henni hefur nú verið brugðist.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.