Bætt afhendingaröryggi rafmagns til Seyðfirðinga

Breytingar sem gerðar hafa verið á stjórnbúnaði Fjarðarárvirkjana bæta til muna afhendingaröryggi rafmagns til íbúa og fyrirtækja í Seyðisfirði.

Sem mörgum er kunnugt keypti HS Orka báðar þær virkjanir Seyðfirðinga sem saman kallast Fjarðarárvirkjun á síðasta ári. Þar um að ræða Bjólfsvirkjun og Gúlsvirkjun. Í kjölfar þess hóf fyrirtækið, í samstarfi við RARIK, að uppfæra stjórnbúnað allan til nútímavegar og sökum þeirra breytinga hefur rafmagnsöryggi í bænum nú aukist til muna.

Hingað til hafa virkjanirnar aldrei verið beintengdar við bæinn og íbúar því þurft að reiða sig á rafmagnsflutninga með loftlínu frá Héraði yfir Fjarðarheiðina með tilheyrandi takmörkunum og hættu á rafmagnsleysi eða truflunum í ofsaveðrum.

Með breytingunum geta virkjanir Fjarðarár nú framleitt rafmagn beint inn á aðveitustöðina í Seyðisfirði ef bilun eða truflanir verða á landskerfinu. Það er gert með fjarstýringu kerfisins gegnum svokallaða eyju og virkjanirnar skila rafmagni beint til bæjarbúa í takt við notkun á staðnum hverju sinni.

Verði bilun í landskerfinu eiga Seyðfirðingar eftirleiðis engu að síður að fá nægt rafmagn þegar á þarf að halda. Mynd HS Orka

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar