Austurland eldrautt í litakerfi Covid

Austurland er rauðlitað, líkt og aðrir landshlutar, í nýju viðvörunarkerfi vegna útbreiðslu Covid-faraldursins sem kynnt var til sögunnar í morgun. Sóttvarnalæknir á ekki von á svæðisbundnum aðgerðum á næstunni.

Litakvarðinn er í fjórum þrepum, gráu, rauðu, appelsínugulu og rauðu þar sem gráa þrepið er tákn um minnstu ógnina en rauða það mestu.

Grátt ástand er talið hafa óveruleg áhrif á daglegt líf fólks. Þar er gert ráð fyrir að 50-100 manns geti komið saman, gegn því að halda tveggja metra fjarlægð og grímunotkun almennings er talin óþörf.

Í rauðu ástandi finnur almenningur fyrir miklum samfélagslegum áhrifum enda í gildi strangar og íþyngjandi aðgerðir á samkomum og jafnvel ferðum fólks innanlands. Fjöldatakmörkunin miðast við 5-10 manns og grímunotkunin er talin nauðsynleg, svo dæmi séu tekin.

Austfirðingar beðnir um að forðast samkomur

Samkvæmt litakóðanum sem tekinn var í notkun í morgun er rautt ástand um allt land, líka á Austurlandi, þótt ekkert smit hafi greinst í fjórðungnum frá 17. nóvember og þar hafi heldur enginn verið í sóttkví í álíka langan tíma.

Í skýringum með viðvörunarkerfinu segir að enn sé alvarlegt ástand á landinu, þar með talið Austurlandi, þótt smit séu ekki útbreidd þar. Þá sé álag á viðbragðsaðila og heilbrigðiskerfi á svæðinu þolanlegt.

Fólk er beðið að halda sig sem mest til hlés og slá stærri fjölskyldusamkomum á frest, auk þess að forðast aðrar samkomur. Þá er fólk beðið um að fara sérstaklega með gát þegar það fari til Austurlands frá landshlutum þar sem smit eru útbreidd.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði á upplýsingafundi almannavarna í dag að margir þættir hefðu áhrif á litavalið, til dæmis nýgengi smita innanlands, ástand á sjúkrahúsum, þróun faraldurs, fjöldi smita utan sóttkvíar, fjöldi smita á landamærum og erlendis.

Svæðisbundnar aðgerðir ekki á döfinni

Núverandi samkomutakmarkanir gilda til miðvikudags en þess er vænst að nýjar ráðstafanir verði kynntar á morgun. Þórólfur hefur þegar skilað heilbrigðisráðherra tillögum sínum en hann sagði í gær að hæpið væri að slaka mikið á.

Þá sagðist hann ekki telja ástæðu til að fara í svæðisbundnar aðgerðir að svo stöddu þar sem faraldurinn sé almennt á niðurleið. Slíkar aðgerðir komi helst til greina þegar faraldurinn sé í vexti á einum stað umfram aðra. Eins benti Þórólfur á að mismunandi skoðanir væru á því, jafnt innan höfuðborgarsvæðisins sem utan, um hvort yfir höfuð væri rétt að grípa til svæðisbundinna aðgerða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar