Austurbrú: Fjárframlög fylgja ekki vísitöluhækkunum og því vantar starfsfólk

Ekki er útlit fyrir að Austurbrú skili þeirri framlegð sem vænst var á þessu ári. Formaður stjórnar segir að tryggja verði að framlög til stofnunarinnar verði að fylgja verðlagsbreytingum. Framkvæmdastjórinn kveðst finna fyrir auknum stuðningi við stofnunina.


Fimm ár eru liðin síðan stofnuninni var komið á laggirnar en hún leysti meðal annars Markaðsstofu Austurlands, Menningarráð, Þróunarfélagið og Fræðslunetið, sem áður voru sjálfstæðar einingar, af hólmi. Ársfundur stofnunarinnar verður haldinn í Fljótsdal í dag.

Á ýmsu hefur gengið í rekstrinum og lengi voru fjármál stofnunarinnar í hámælum, sem meðal annars hefur skýrt með því að fjárhagstaða fyrirrennaranna hafi verið misjöfn.

Í ársskýrslu segir Jón Björn Hákonarson, formaður stjórnar, að þrátt fyrir mikinn undirbúning sé ljóst að vanda hefði ýmislegt betur. Skýrari stefnumótun hafi þurft, stofnaðilar hefðu þurft að vera meðvitaðri um ábyrgð sína og gerð var krafa um að verkefni væru unnin af stórhug án þess að þeim fylgdu viðeigandi fjárframlög.

Ekki með mönnun til að standa undir verkefnum

Stefnt hefur verið á að stofnunin skilaði 5% hagnaði á ári til að vega upp neikvætt fé fyrri ára. Í bréfi sem sent var til aðildarfélaga í vor frá stjórn kemur fram að ekki sé útlit fyrir að það markmið náist í ár.

Miðað við ýtrustu sparnaðarleiðir verði hagnaðurinn tæpt 1% og þá megi ekkert út af bregða. Á sama tíma sé stofnunin ekki með þá mönnum sem til þurfi til að standa undir verkefnum. Þar með hraki þjónustustigi stofnunarinnar auk þess sem hún eigi erfitt með að sækja aukin verkefni og nýja tekjustofna. Henni hafi verið haldið í floti í fyrra þar sem stjórnendur gengu í störf verkefnastjóra og kennara.

Húsnæðismál á Egilsstöðum hafa einnig þvælst fyrir stofnuninni. Í fyrra var starfsemin færð saman í eitt hús á Vonarlandi en þegar bréfið var sent út hafði Austurbrú enn efri hæð annars húss þar á leigu og var 40% þess ónýtt.

Framlög halda ekki í við verðhækkanir

Framlög ríkis og sveitarfélaga hafa verið fastar upphæðir en taka ekki vísitölubreytingum og halda ekki í við launahækkanir. Í erindinu segir að forgangsatriði sé að gagna til samninga um endurnýjun á rekstrarframlögum.

Í erindinu, sem undirritað er að Jóni Birni Hákonarsyni, formanni stjórnar, segir að í samningunum þurfi einnig að taka tillit til sérstöðu Austurlands í fjarlægð frá höfuðborginni þar sem „öll opinber þjónusta hafi fengið að byggjast upp í gegnum tíðina.“

Ekki sé síður brýnt að að framlög til ýmissa verkefna verði sambærileg fyrir Austurland og aðra landsfjórðunga en þar halli „því miður víða verulega á.“ Stjórn Austurbrúar hafi þrýst á um viðræður en greini tregðu innan ráðuneyta til þess.

Aukinn stuðningur úr samfélaginu

Þá kallar Jón Björn eftir því að stofnaðilar Austurbrúar ræði hvaða stefnu hún eigi að taka á næstu árum, hvaða verkefni eigi að fela henni og hvaða þjónustu hún eigi að sinna til lengri tíma litið.

Í ávarpi framkvæmdastjóra, Jónu Þórðardóttur, í ársskýrslu segir hún ársreikninga stofnunarinnar sýna að hún sé á réttri leið en hagnaður er á rekstrinum í annað skiptið í rekstrarsögunni. Þá hafi hún að undanförnu fundið fyrir auknum stuðningi við stofnunina úr samfélaginu um leið og Austurbrú hafi sýnt mátt sinn með öflugum verkefnum eins og Áfangastaðnum Ausuturlandi.

„Ég held að fólk sé byrjað að sjá að hún getur orðið nákvæmlega það sem menn ætluðu sér í upphafi og ef til vill eitthvað annað og meira sem menn sjá ekki fyrir.“

Frá stofnfundi Austurbrúar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.