Austfirsku sveitarfélögin standa saman að þróun almenningssamgangna

ssa_almenningssamgongur_yfirlysing.jpg
Fulltrúar allra sveitarfélaga á Austurlandi undirrituðu á föstudag yfirlýsing um að þau standi saman að því að tryggja áframhaldandi þróun almenningssamgangna á svæðinu. Markmiðið er að móta heilstætt kerfi almenningssamgangna sem tengi byggðirnar saman, verði aðgengilegt fyrir alla íbúa svæðisins sem og ferðamenn og verði raunhæfur valkostur í ferðum innan fjórðungs sem og til og frá fjórðungnum.

Með þessu er haldið áfram þróuninni sem orðið hefur eftir að landshlutasamtök sveitarfélaga sömdu við Vegagerðina um aukna aðkomu heimamanna að umsjón almenningssamgangna. 

Samið hefur verið við Fjarðabyggð, Djúpavogshrepp og Seyðisfjarðarkaupstað um að Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) yrði milliliður við akstursaðila á svæðinu um þann akstur sem áður byggðist á sérleyfissamningum á milli Vegagerðarinnar og viðkomandi akstursaðila.

Samningar eru byggðir á grunni eldri sérleyfissamninga en við kerfið bætist annar akstur innan sveitarfélaga sem og starfsmannaakstur Alcoa Fjarðaáls eftir nánara samkomulagi þar um. SSA mun gera sambærilegan samning beint við akstursaðila á Borgarfjörð.

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir stýrir verkefninu fyrir hönd Austurbrúar. Hún segir yfirlýsinguna afar þýðingarmikla en Austurbrú og Samband Sveitarfélaga á Austurlandi hafa unnið að þróun kerfisins. 

„Heildstætt samgöngukerfi á Austurlandi skiptir íbúa svæðisins miklu máli,“ segir Ásta. „Að tengja þéttbýliskjarna saman þannig að íbúar geti nýtt mismunandi þjónustu, stundað félagsstörf, skólasókn eða atvinnu milli svæða styrkir okkur sem heild og gerir okkur kleift að ferðast á öruggan, ódýran og umhverfisvænni hátt. 

Samgöngur sem eru aðgengilegar og vel kynntar eru einnig mikilvægar fyrir ferðamenn sem sækja Austurland heim og gefur þeim möguleika á að upplifa fjölbreytileikann sem svæðið hefur uppá að bjóða. Frekari þróun kerfisins, upplýsingagjöf og samræming gjaldtöku er í vinnslu og verður aðgengilegt almenningi frá og með 1.mars nk.“

Auk framangreinds skuldbinda sveitarfélög á Austurlandi sig ásamt akstursaðilum til þess að taka þátt í þróunarverkefni SSA um upplýsingagjöf, farmiðakerfi og aðra þróun á framkvæmd skipulagðra samgangna á starfssvæði sambandsins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.