Austfirsku framhaldsskólarnir koma vel út í könnunum: ME fimmti besti á landinu

me.jpg

Útskriftarnemar úr Menntaskólanum á Egilsstöðum og Verkmenntaskóla Austurlands spjara sig vel þegar komið er í háskólanám. ME er í fimmta sæti nýrrar könnunar tímaritsins Frjálsrar verslunar yfir bestu framhaldsskóla landsins.

 

Þetta er í annað sinn sem tímaritið vinnur slíka könnun og er ME hástökkvari listans í ár, fer úr nítjánda sæti í það fimmta. Ástæðan er útskriftarhlutfall nemenda úr Háskóla Íslands að stúdentsprófi loknu en sá þáttur er nýr á mælikvarðanum.

Að auki var litið til árangurs nemenda í fagkeppnum, öðrum keppnum framhaldsskólanna, menntun kennara og aðsókn. Árangurinn í HÍ og fagkeppnunum vó þyngst í útreikningunum. Niðurstöðurnar eru birtar í maíhefti Frjálsrar verslunar.

Menntaskólinn í Reykjavík, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Verzlunarskóli Íslands og Menntaskólinn á Akureyri eru fyrir ofan ME.

Bæði ME og VA komu vel út í úttekt á eininkunum nemenda í HÍ eftir fræðasviðum og framhaldsskóla sem kynnt var nýverið. Nemendur skólanna voru í öðru og þriðja sæti yfir meðaleinkunni á hugvísindasviði, VA var þar fyrir ofan.   

Nemendur ME voru að auki með fimmtu hæstu meðaleinkunnina á félagsvísindasviði og VA með þá áttundu í röðinni. Að auki voru stúdentar úr ME með sjöttu bestu einkunnina á verk- og náttúruvísindasviði en þá áttundi á heilbrigðisvísindasviði. Fimm svið eru alls við HÍ.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar