Austfirðingar læra margmiðlun í Noregi: Sams konar nám ekki í boði á Íslandi

Tveir Austfirðingar stunda nú nám í margmiðlun við Nord háskólann í Noregi og una hag sínum þar vel. Fulltrúar skólans kynna námið á Egilsstöðum, Norðfirði og Höfn á morgun.


Námið sem um ræðir er þrívíddarlist, kvikun og myndbrellur (3D art, animation & VFX), sjónvarps- og kvikmyndaframleiðsla (TV & film production) og tölvuleikjahönnun (digital game design). Námið nýtur sívaxandi vinsælda meðal íslendinga, en nú þegar eru um 40 íslenskir nemendur við nám við Nord háskólann, þar á meðal Austfirðingarnir Fannar Árnason og Sölvi Snær Sigurðarson.

„Ég er að fíla námið í botn, passlega nóg að gera og svona, reyndar farið mjög hratt í námið en þá leggur maður sig bara meira fram og tekur vel eftir í tíma,“ segir Fannar Árnason frá Neskaupsstað, sem er á fyrsta ári í á þrívíddarlistabrautinni.

Sölvi Snær tekur í sama streng. Hann er á fyrsta ári í sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu, ólst að miklu leyti upp á Egilsstöðum. „Kvikmynda- og sjónvarpsframleiðsla er spennandi og fjölbreytt nám,“ segir Sölvi.

„Síðustu tvær vikurnar er ég búinn að vera að ferðast mikið í Norður-Þrændalögum og taka upp leikrit, hæfileikakeppni og tónleika og svo fór ég ásamt 8 manna hópi að taka upp aðra tónleika. Í svona verkefnum er góð samvinna mikilvæg og þannig hef ég kynnst samnemendum mínum mjög vel. Það er jákvæð og dýrmæt reynsla. Ég mæli hiklaust með þessum skóla. Samskonar nám er ekki til á háskólastigi á Íslandi.“

Þeir eru sammála um að það hafi verið farsæl ákvörðun að sækja um skólavist í Nord háskólanum, enda er háskólanám í Noregi nemendum að kostnaðarlausu, ef frá eru talin svokölluð annargjöld, sem miðað við gengi dagsins í dag eru undir 10.000,- ISK á önn.

„Svo verð ég náttúrlega að tala um kennarana, námið er á ensku, og það eru allskonar kennarar hérna og þeir eru allir með góðan húmor og halda náminu persónulegu, því þeir vilja virkilega muna nafnið þitt og kynnast þér sem persónu, sem er mjög gott, því flestir skólar eða kennarar gera það bara alls ekki,“ bætir Fannar við að lokum.

Fulltrúar Nord háskólans, þ.m.t. Berglind Sigurjónsdóttir, annars árs nemi í sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu og Richard Hearsey sem um árabil starfaði fyrir BBC, hefja daginn í Menntaskólanum á Egilsstöðu kl. 9:00 á morgun febrúar, en sá fundur er einnig opinn þeim sem ekki eru við nám í ME.

Klukkan 13:00 verður svo kynning á náminu í Verkmenntaskóla Austurlands á Neskaupsstað og kl. 19:00 verður opinn kynningarfundur í Framhaldsskólanum í Austur-Skaptafellssýslu á Höfn í Hornafirði fyrir alla sem áhuga kunna að hafa.

Mynd: Sölvi Snær stýrir upptökum í náminu.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.