Auðveldara að eiga druslur þegar göngin koma

Nemendur í Verkmenntaskóla Austurlands sjá bæði ógnanir og tækifæri í nýjum Norðfjarðargöngum sem verða tekin í notkun síðar á árinu. Viðbrigðin verða ekki síst fyrir þá sem á hverjum degi fara yfir Oddsskarðið í skóla.


„Sum bentu á að það verðu auðveldara að eiga druslur. Þú ferð ekki yfir skarðið á Yaris á veturna,“ sagði Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, á fundi um áhrif væntanlegra ganga á opnum fundi í Egilsbúð nýverið.

Hún fór inn í tvo tíma í VA og fékk þar álit 70 ungmenna á aldrinum 17-19 ára á áhrifum ganganna. Um helmingur þeirra ferðast daglega yfir Oddsskarð til að mæta í skólann.

Þau sjá fram á aukið öryggi, með að þurfa ekki að vera á fjallvegi í myrkri, styttri ferðatíma á veturna og minni bensíneyðslu. Þau eru þó ekki sannfærð um að þau komi út í plús út af hraðamyndavélum í göngunum og hafa áhyggjur af framtíð snjómokstursmannsins á skarðinu sem þau eru mörg hver í góðum tengslum við.

Þau búast við auknum áhuga fyrir að búa í Neskaupstað því eingrun staðarins hafi mest áhrif á þá sem ekki séu vanir henni. Fasteignaverð kunni að hækka um leið.

Röð þegar Jón Sen mætir

Ýmis konar skreppitúrar kunna að aukast og íþróttalíf milli staða mun aukast. Óvíst er samt hvort fleiri nýti sér félagslífið á Norðfirði þar sem vegalengd og ferðatími breytast ekki verulega. Norðfirðingar óttast líka að enginn verði í bænum um helgar.

Þá eru áhyggjur af skíðasvæðinu þar sem gömlu göngunum verður lokað og þá verður lengra fyrir Norðfirðinga að fara. Snjómokstur þangað upp lendir líklega á sveitarfélaginu.

Fyrrum nemendur Nesskóla sjá líka fram á krakkarnir í grunnskólanum fái alltaf mat en þar hafa þau upplifað að matur berist ekki eða hvikað sé frá matseðli því ekki hafi verið fært yfir Oddsskarð.

Ungmennin sjá fram á aukna notkun Fjórðungssjúkrahússins sem á móti geti þýtt að Norðfirðingar þurfi að bíða lengur. Röð verði í gegnum göngin þegar Jón Sen verði í bænum. „Þau vita alveg hvaða aðdráttarafl við höfum,“ sagði Jóna Árný.

Meirihlutinn vill búa eystra

Hún sagði stærstan hluta hópsins vilja búa á Austurlandi en ætla að fara í burtu í nám eða vinnu eftir stúdentspróf. Stefnan er til útlanda eða Akureyrar þar sem umhverfið í Reykjavík sé erfiðra og dýrara.

Þau binda vonir við atvinnutækifæri í nýsköpun í tæknigreinum og þjónustu. Þau vonast eftir góðum háskóla á Austurland, ódýru flugi, góðum almenningssamgöngum, öflugri heilbrigðis- og sálfræðiþjónustu, aðgengi að leiguhúsnæði og ís úr vél allt árið. Þá segja þau vanta tilbúna afþreyingu þannig þau þurfi ekki alltaf að vera að skapa félagslíf sitt sjálf.

Þá telja þau að næstu göng verði milli Norðfjarðar og Seyðisfjarðar og þaðan áfram upp í Hérað.

„Þetta eru sjónarmið sem við fáum ekki endilega oft að heyra en göngin skipta miklu máli fyrir þennan hóp sem verður hér í framtíðinni,“ sagið Jóna Árný.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.