„Átta ára börn eru bestu eldvarnarfulltrúarnir“

Í nóvember fá allir þriðju bekkir landsins heimsókn frá slökkviliðunum á sínu svæði þar sem farið er yfir eldvarnir á heimilum og fleira sem því tengist.



Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hefur gefið út myndskreytta bók um slökkviálfana Loga og Glóð og illvirkjann Brennu-Varg og fá þessir nemendur hana að gjöf.

„Við förum yfir grunnþætti í eldvörnum heimilanna, mikilvægi reykskyjara, slökkvitækja og eldvarnarteppa. Einnig útgönguleiðirnar og æfum rýmingarplanið sem fyrir er í skólanum,“ segir Guðmundur H. Sigfússon, slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð.

Guðmundur segir þriðju bekkingana vera sérstaklega móttækilega fyrir fræðslu. „Átta ára börn eru bestu eldvarnarfulltrúarnir. Þau eru einstaklega áhugasöm og hafa mikið að segja – flest hafa þau lent í einhverju og næstum búið að kvikna í á mörgum stöðum að þeirra sögn. Ef ég hitti þau svo út í búð seinna halda sögurnar áfram að koma.“



Fræðslan skilar sér inn á heimilin

Guðmundur segir fræðsluna skila sér inn á heimilin í aukinni meðvitund. „Þau kenna svo foreldrum sínum og forráðamönnum í kjölfarið, sem þakka okkur fyrir og segjast jafnvel ekki hafa áttað sig á einhverjum atriðum sem hafa svo verið lagfærð. Sumir skjóta á okkur að heimsóknin hafi verið dýr,“ segir Guðmundur og hlær.

Guðmundur segir nauðsynlegt að eitt slökkvitæki sé á heimilinu, eldvarnarteppi og reykskynjari, í það minnsta einn, en þó helst einn í hverju herbergi.


Verðum að kunna á búnaðinn

„Svo er ekki nóg að eiga þessi tæki til en nýta þau ekki rétt. Slökkvitækið verður að vera á aðgengilegum stað og það þarf að skoða reglulega, en þjónustuaðilinn fyrir þau er á Eskifirði. Reykskynjararnir hafa aðeins tíu ára endingartíma og auðvitað er mikilvægt að skipta reglulega um rafhlöður í honum.“

Guðmundur segir einnig skipta höfuðmáli að heimilismeðlimir kynni sér hvernig á að nota búnaðinn. „Það eru leiðbeiningar á öllum þessum búnaði en ef að eldur kemur upp er enginn tími til þess að fara að lesa, en til dæmis er erfitt að slökkva eld með slökkvitæki nema fyrstu þrjár mínúturnar.“


Verum að varðbergi

Guðmundur vill einnig minna fólk á að passa seríur og kertaskreytingar – skipta út gömlum perum sem farnar eru að hitna og tryggja að eldur komist ekki í skraut sem auðveldlega fuðrar upp.

Hann vill einnig ráða fólki frá því að tengja fjöltengi í annað fjöltengi því þau þoli aðeins ákveðinn straum og geti kveikt í út frá sér ef þau eru ekki rétt notuð.

Þá segir hann vaxandi vandamál sem tengjast tölvum og hleðslutækjum. „Það er stórhættulegt að skilja fartölvur, síma og hleðslutæki í sambandi í rúminu, en þessi tæki hitna svo mikið og fljótt og geta auðveldlega kveikt í séu þau undir sængurfötum.“

Ljósmynd: Frá heimsókn Slökkviliðs Fjarðabyggðar í þriðja bekk Nesskóla í Neskaupstað.

Hér að neðan má sjá innslag um Slökkvilið Fjarðabyggðar úr þættinum Að austan síðan í nóvember.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.