Atkvæðin að austan koma seint

Atkvæði af Austurlandi vigta seint inn í úrslit úr Norðausturkjördæmi í þingkosningunum á morgun. Gerðar hafa verið ráðstafanir fyrir flutning atkvæða ef veður verður vont.


Talningafólk lokar sig inni í Brekkuskóla á Akureyri klukkan átta annað kvöld þegar minnstu kjörstaðirnir loka. Þar verður talið og kjörkassar af Eyjafjarðarsvæðinu verða fyrstir á svæðið.

„Það er skipt um kassa seinni partinn á Akureyri og stóru kjördeildunum næst bænum. Síðan verður keyrt til okkar með kassa úr litlu kjördeildunum á svæðinu þegar þær loka,“ segir Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar.

Byrjað verður að flokka atkvæðin en ekki má byrja að telja fyrr en kjörstöðum er lokað klukkan tíu. Von er á fyrstu tölum milli klukkan hálf ellefu og ellefu. Inni í þeim verða ekki tölur af Austurlandi því kjörkassarnir verða enn á leiðinni. „Þá verðum við komin með 60% atkvæða“

Á Austurlandi eru um 7000 manns á kjörskrá eða rétt rúmur fjórðungur þeirra sem það eru í kjördæminu. Lögreglan safnar saman kössum á Norðausturhorninu og keyrir með frá Vopnafirði.

Kjörkössum úr 700 póstnúmerunum verður safnað saman á Egilsstöðum eftir klukkan tíu þaðan sem flogið verður með þá til Akureyrar. Gjarnan hefur skipt um kassa í stærstu kjördeildunum um miðjan dag og keyrt með þá norður til að atkvæði að austan séu með í fyrstu tölum en svo er ekki nú.

Þá er spáð hvassviðri og jafnvel snjókomu, að minnsta kosti upp til fjalla, annað kvöld. Aðspurður segist Gestur eiga von á seinlegri talningu og lokatölur liggi ekki fyrir fyrr en um klukkan átta á sunnudagsmorgun.

„Veðurspáin er ekki hliðholl okkur og ekki útséð um að hægt verði að fljúga. Við erum búin að gera ráðstafanir til að keyra með atkvæðin og fá aðstoð frá Vegagerðinni ef þarf.“

Fleira getur tafið talningu og endanleg úrslit, svo sem mörg utankjörfundaratkvæði og útstrikanir. „Við höfum frétt að utankjörfundaratkvæðin séu álíka mörg og í síðustu kosningum. Þau eru yfirleitt flest síðustu dagana fyrir kjördag og við vitum ekki hvort slæm veðurspá hafi þau áhrif að fólk kjósi frekar utankjörfundar.“

Þá hafa Austurfrétt borist til eyrna að von sé á töluverðum fjölda útstrikana í kjördæminu. Þær verða taldar í lokin. „Það hefur ekkert borist okkur til eyrna varðandi þær. Við sjáum bara til þess að kosningin fari rétt og löglega fram. Útstrikanirnar eru taldar í restina og landskjörstjórn úrskurðar um hvort þær hafi áhrif.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.