Andlát: Elma Guðmundsdóttir

Hulda Elma Guðmundsdóttir, fyrrum ritstjóri Austurlands og bæjarfulltrúi í Neskaupstað, lést í gær 77 ára að aldri á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum í Reykjavík.

Elmu verður einkum minnst fyrir framtakssemi hennar í stjórnmálum, íþróttamálum og útgáfumálum á Austurlandi í áratugi.

Elma var afar góður íþróttamaður auk þess að gegna margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir hreyfinguna. Árið 1972 varð Elma formaður Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands, fyrst kvenna til að verða formaður héraðssambands. Hún varð síðar framkvæmdastjóri sambandsins.

Hún hlaut viðurkenningar frá Þrótti, UÍA, ÍSÍ, UMFÍ og Knattspyrnusambandi Íslands, en hún varð fyrst kvenna til að hljóta silfurmerki síðastnefnda sambandsins. Árið 2001 varð hún landsmótsmeistari í blaki og spilaði á því móti með dóttur sinni og dótturdóttur í liði.

Elma var virk í starfi Alþýðubandalagsins í Neskaupstað, sat í bæjarstjórn í tvö kjörtímabil auk þess að sitja í fjölda ráða og nefnda. Hún varð meðal formaður Félags eldri borgara í Neskaupstað.

Elma átti ríkan þátt í að koma og styrkja vinatengsl milli Norðfjarðar og Sandavogs í Færeyjum. Hennar var minnst í gær á færeyskum netmiðlum sem „Færeyjavinar.“

Síðast en ekki síst starfaði Elma ötullega að ritstörfum. Hún var lengi í ritnefnd Austurlands og skrifaði í blaðið. Hún varð síðasti ritstjóri blaðsins sem hún hafði byrjað að selja 10 ára gömul. Það rann síðan inn í Austurgluggann en hún tók sæti í stjórn Útgáfufélags Austurlands sem heldur utan um útgáfu bæði Austurgluggans og Austurfréttar í dag. Þá gaf hún út fyrir tíu árum bók með gamansögum af Norðfirðingum.

Austurfrétt/Austurglugginn votta aðstandendum Elmu samúð sína.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.