Alltaf vitnað í veturinn 1929

„Nei, andskotakornið, menn muna svo stutt, það hefur oft komið svona góður vetur þar sem heiðin hefur verið meira og minna opin,“ segir Sigfús Vilhjálmsson á Brekku í Mjóafirði í tengslum við formlega sumaropnun Vegagerðarinnar um Mjóafjarðarheiði um mánaðamótin.

„Vegagerðin opnar heiðina alltaf formlega um mánaðamótin maí/júní þegar ferjan hættir að ganga á Norðfjörð, en frá 1. okótóber eru tvær ferðir í viku til þess að íbúar geti sótt kost og annað sem þarf að gera í kaupstað,“ segir Sigfús.

Óhætt er að segja að liðinn vetur hafi verið snjóléttur með eindæmum og oftar en ekki hægt að komast um heiðina, í það minnsta á vel búnum jeppum. „Vinur minn á Egilsstöðum á jarðýtu og ruddi stunum slóð þannig að stórir jeppar kæmust. Yfirleitt er heiðin fyrst mokuð í apríl, en það var gert í mars þetta árið. Auðvitað er vegurinn blautur og með þungatakmörkunum, en það hefur yfirleitt verið hægt að komast yfir í vor.“

Sigfús gefur ekki mikið fyrir það að þessi vetur hafi sérstaklega óvanalegur. „Það hafa oft komið svona góðir vetur. Gömlu karlarnir sögðu alltaf að veturinn 1929 hafi verið alveg sérstakur, þá hafi aldrei komið frost í jörðu allan veturinn, gróðurinn kominn upp á Góu og ekkert vorhret nema rétt í apríllok – en þá var ekki einu sinni hægt að kenna loftmengun eða öðru slíku um. Vitaskuld hefur oft komið góður vetur, en það er alltaf vitnað í þennan þegar það kemur upp.“

Sigfús segir íbúa Mjóafjarðar koma vel undan vetri. „Já, almennt myndi ég telja það. Við höfum fengið gott veður að undanförnu þó svo að það sé að gera örlítið hret núna og það gæti orðið þungfært um heiðina í kvöld. Þegar það snjóar ekki ofan í sjó um þetta leyti gerir það fuglunum ekki neitt og þá er bara allt í fína lagi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.