„Alltaf gleymist Austurland“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og þingmaður Norðausturkjördæmis, vakti athygli á naumum hlut Austurlands í nýrri samgönguáætlun þegar hún var tekin til fyrstu umræðu á Alþingi í vikunni. Samgönguráðherra segir að þau verkefni hafi hlotið forgang sem auki öryggi mest.

„Ég vil spyrja ráðherra hvort honum finnist þetta boðlegt og hvort hann vilji ekkert taka tillit til þeirra forgangsmála Austfirðinga sem hafa einróma ályktað um framkvæmdir. Í áætluninni eru farnar allt aðrar leiðir. Mér finnst þetta að minnsta kosti skammarlegt,“ sagði Logi þegar hann hóf umræðuna um samgönguáætlun.

Austfirðingar hafa komið á framfæri mótmælum við nýjar samgönguáætlanir, annars vegar til fimm ára, hins vegar til 15 ára. Gagnrýnt er að tíu ára bið sé í Fjarðarheiðargöng og nýjan veg yfir Öxi, nýframkvæmdir sem settar hafa verið í forgang í sameiginlegum ályktunum austfirskra sveitarstjórnamanna.

Logi benti á að í framkvæmdir næstu fimm ár á austursvæði Vegagerðarinnar væru ætlaðir 4,3 milljarðar. Af þeim eru 3,3 milljarðar í framkvæmdir í sveitarfélaginu Hornafirði sem tilheyrir Suðurkjördæmi. Eftir standi einn milljarður sem þýði að Austurland fái langminnst í sinn hlut.

Rétt að horfa á lengra tímabil

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, sagði að við gerð samgönguáætlunar væri horft á landið í heild og framkvæmdum forgangsraðað með umferðaröryggi í huga. Enn fremur sagði hann að rétt væri að skoða úthlutun eftir svæðum til vegamála aftur í tímann.

„Umferðaröryggi er númer eitt, tvö og þrjú og forgangsröðunin miðast þar af leiðandi að því að aðskilja akstursstefnur á þessu svæði þar sem alvarlegustu slysin eru. Það nýtist öllum landsmönnum, líka þeim sem búa fyrir austan og norðan því að þeir þurfa að fara um þau svæði. Þau eru hættulegust í öllu vegakerfinu.

Við í samgönguráðuneytinu horfum á Ísland sem eina heild og færi hæstvirtur þingmaður yfir skiptingu framkvæmdafjár til einstakra svæða, kannski 20 ár aftur í tímann, væri kannski kominn eðlilegri mælikvarði á það hvernig skiptingin er og kannski væri líka rétt fyrir þingmanninn að taka ekki bara umferðarþunga og umferðaröryggi eða skiptingu síðustu 20 ára heldur taka lengd, kílómetra og umferðarþunga á einstökum svæðum,“ sagði Sigurður Ingi.

Um göng til Seyðisfjarðar sagði Sigurður Ingi reyndar að þau væru næst í röðinni á eftir Dýrafjarðargöngum. Síðarnefndu göngunum fylgdu einnig vegtengingar upp á 10 milljarða til að klára grunnnet vegakerfisins á Vestfjörðu,

Norðausturkjördæmi fengið þriðjung framkvæmdafjár undanfarinn áratug

Þórunn Egilsdóttir, flokkssystir Sigurðar Inga úr Framsóknarflokknum frá Vopnafirði og formaður samgönguráðs tók undir að öryggið hefði verið sett í forgang. Það væri niðurstaða funda ráðsins víða um land. Þá hafi nýframkvæmdum verið raðað með áherslu á þau svæði sem setið hafi eftir síðustu ár.

Bryndís Haraldsdóttir, sem situr á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðvesturkjördæmi, benti á að undanfarin 10 ár hafi Norðausturkjördæmi fengið mest af nýframkvæmdafé, 34%, séu jarðgöng talin með. Á sama tíma fái Reykjavík og Suðvesturkjördæmi samanlagt 16% þótt þar búi 70% landsmanna.

Öryggismál að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu

Í andsvari sínu við ummælum ráðherra sagðist Logi ekki gera athugasemd við að fé væri veitt til að bæta umferðaröryggi á suðvesturhorninu heldur vera að benda á hversu skarðan hlut Austfirðir bæru frá borði. Rifjaði hann upp bók með úrvali ljóða austfirskra skálda sem kallaðist „Aldrei gleymist Austurland“ þegar hann sagði:

„Hér held ég að hafi birst bók sem er gefin út á Suðurlandinu sem heitir Alltaf gleymist Austurland. Ég held að ráðherra hljóti að hugsa líka til Seyðfirðinga þegar hann heldur ræðuna sína um öryggi og öryggisleysi, það að búa í lokuðum firði á vetrum með takmarkaðan aðgang að heilbrigðisþjónustu er líka öryggismál.“

Jón Gunnarsson, fyrrverandi samgönguráðherra, benti á að til skoðunar væru hugmyndir um upptöku vegtolla sem skilað gætu 65 milljörðum á næstu sex árum aukalega til vegaframkvæmda. Slík gjaldtaka gæti flýtt fyrir bæði Öxi og göngum til Seyðisfjarðar. Von er á að nefnd sem skipuð var um málið skili af sér fyrir árslok.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.