„Allir heilir hér og enginn í hættu“

Austfirðingur, sem búið hefur í Vínarborg í hátt í áratug, segir lögregluna hafa brugðist skjótt við eftir hryðjuverkaárás í miðborginni í gærkvöldi. Sjálfur býr hann þó töluvert frá því svæði sem skotárásirnar áttu sér stað.

„Hér eru allir heilir og enginn í hættu,“ segir Andri Mar Jónsson, tölvunarfræðingur frá Fáskrúðsfirði sem búsettur er í Vínarborg. Hann með fjölskyldu sinni býr í úthverfi, talsvert langt frá atburðunum í gærkvöldi sem urðu í miðborginni eða fyrsta hverfi.

Vinnustaður hans er hins vegar niður í miðborginni en starfsmenn hafa unnið heiman frá sér síðustu vikur vegna Covid-19 faraldursins. Nokkuð mannmargt var þó á svæðinu í gærkvöldi að njóta síðustu kvöldstundarinnar áður en útgöngubann tók gildi á miðnætti vegna faraldursins og hlýtt í veðri.

Einn vinnufélagi Andra var þar á meðal. Sá er heill á húfi en fjórir eru látnir og sjö alvarlega slasaðir eftir árásirnar. „Hann hélt fyrst að þetta væru flugeldar.“

Árásin átti sér stað í elsta hluta borgarinnar þar sem margar götur eru það þröngar að erfitt er að athafna sig á bílum. Miðborgin afmarkast af hringvegi, í raun gömlu borgarmúrunum og segir Andri Mar að lögreglan hafi verði fljót að marka af svæðið og hindra mannaferðir inn og út af því

Einn árásarmaður lést í skotbardaga við lögreglu og annar var handtekinn en talið er að minnsta kosti tveir aðrir hafi verið að verki. Þeir eru ófundnir en fjöldi fólks hefur verið handtekið víða um Austurríki í dag vegna mögulegra tengsla við ódæðið.

Myndir af atburðunum í bæði samfélagsmiðlum og fjölmiðlum hafa vakið hörð viðbrögð og strax í morgun afturkölluðu fyrirtæki auglýsingar hjá miðlum sem birt höfðu grófustu myndirnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.