Allavega vika í að afurðaverð í sláturtíðinni liggi fyrir

Enn sem komið er hafa sláturhúsin ekki gefið út afurðaverð til sauðfjárbænda á þessari sláturtíð en smærri sláturhús hafa þegar hafist handa við að slátra. Steinþór Skúlason forstjóri Sláturfélags Suðurlands (SS) segir að það geti verið allt að ein vika í að verðið verði gefið út.

Smærri sláturhús eins og til dæmis á Vopnafirði bíða eftir risunum á markaðnum það er SS og Kaupfélagi Skagfirðinga með sínar verðskrár.

Steinþór segir að vissulega sé það óþægileg staða að ekki sé enn búið að gefa út afurðaverð nú þegar slátrun sé hafin eða um það bil að hefjast. Staðan sé hinsvegar erfið og að sínu mati sé ekki forsenda fyrir því verði sem sauðfjárbændur gáfu út.

„Við verðum að skoða hlutina í ljósi þess sem er að gerast meðal annars vegna COVID,“ segir Steinþór. „Sá faraldur mun auka kostnaðinn hjá okkur. Þá er óvissa og sölutregða á erlendum mörkuðum. Til dæmis höfum við ekki selt neitt til Spánar núna, sem áður tók mikið af kjöti, og við höfum aðeins náð að selja 30 til 40% af gærunum frá síðasta hausti svo dæmi séu tekin.“

Aðspurður um nákvæmari dagsetningu á hvenær megi búast við að SS gefi út verðskrá segir Steinþór að það muni allavega liggja fyrir áður en til fyrstu útborgunar kemur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.