Alcoa styrkir nám í iðn- og tæknigreinum á Fljótsdalshéraði

Tveir ungir nemendur af leikskólanum Hádegishöfða í Fellabæ veittu í vikunni móttöku styrk úr samfélagssjóði Alcoa til sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs. Styrkurinn er ætlaður til að bæta kennslu í raunvísindatengdum greinum.

Styrkurinn er upp á 80 þúsund dollara eða rúmar níu milljónir króna og er varið til að að auka og bæta kennslu í leik- og grunnskólum í sveitarfélaginu á sviðum vísinda, tækni, verk- og stærðfræði (e. STEM).

Verkefnið er þegar hafið hjá Fljótsdalshéraði og hefur verið fjárfest í ýmsum búnaði til að nýta í stærðfræði og forritun en nemendur á Hádegishöfða hafa meðal annars fengið spjaldtölvur og lítil tæki sem hægt er að forrita til að fara fyrirfram ákveðna leið eftir braut.

Þá hafa verið byggðar upp útikennslustofur, keyptur búnaður í verklega kennslu og kennarar styrktir til að fara á námskeið.

Sjóðurinn hefur áður styrkt sambærilegt verkefni í Fjarðabyggð undir heitinu „Verklegt er vitið.“ Í tilkynningu fyrirtækisins segir að vonandi ali verkefnin af sér áhugasama nemendur sem í framtíðinni velji iðn- og tæknigreinar þar sem fólk með slíka menntun skorti í samfélaginu.

Sæbjört Vala Ægisdóttir og Pétur Örn Ólafsson veittu styrknum fyrir hönd sveitarfélagsins ásamt bæjarstjóranum Birni Ingimarssyni úr hendi Magnúsar Þórs Ásmundssonar forstjóra Alcoa Fjarðaáls og Michelle O‘Neill framkvæmdastjóra hjá Alcoa samsteypunni. Þá voru þær Helga Guðmundsdóttir fræðslustjóri og Guðmunda Vala Jónasardóttir leikskólastjóri einnig viðstaddar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.