Áforma að vera með stríðsárasýningu í bragga í sumar

Innan Fjarðabyggðar er nú unnið að áætlunum um að sýning Stríðsárasafnsins í sumar verði í þeim bragga sem enn stendur á safnasvæðinu. Safnið er á hálfgerðum hrakhólum á meðan ekki er tekin ákvörðun um hvar þar verður til framtíðar.

Húsnæðismál Stríðsárasafnsins hafa verið til skoðunar í nokkurn tíma. Haustið 2022 urðu miklar skemmdir á safnasvæðinu í hvassviðri og varð það meðal annars til þess að í fyrra var safnið ekki opnað heldur sett upp útisýning í miðbænum. Áður en foktjónið varð var staðan þó orðin sú að safnið var í raun vaxið upp úr húsnæði sínu og tími kominn á verulegt viðhald.

Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum á mánudag að halda áfram vinnu við tillögu, sem lögð var fram í minnisblaði bæjarritara nýverið, um að opna sýningu í sumar í þeim bragga sem enn stendur á safnasvæðinu.

Flytja á þann safnakost sem völ er á þangað yfir og sýna í sumar, eða þar til nánari ákvörðun liggur fyrir. Fyrri aðalbygging safnsins verður nýtt undir móttöku og snyrtingar en sýningarsalurinn þar undir geymslu. Framkvæmdasvið sveitarfélagsins vinnur nú að nánari útfærslu og kostnaðarmati á hugmyndunum en gróft mat liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði lokið í byrjun júní til að sýningin verði opin í sumar.

Í minnisblaðinu er erfið staða safnsins rakin. Ekki hafi verið gert ráð fyrir fjármagni til uppbyggingar eða viðhalds þess á fjárhagsáætlun þessa árs. Rætt hafi verið um að kaupa húsnæði í miðbænum undir safnið og stefnt á að leggja þær hugmyndir fyrir íbúafund, sem ekki hefur enn verið haldinn.

Þá hafi stjórn safnsins viljað að húsnæði fyrir það yrði haft í huga við endurskoðun skipulags miðbæjar Reyðarfjarðar. Hún er ekki hafin og engin áform um hana.

Í niðurlagi minnisblaðsins segir að eyða þurfi óvissu um framtíðarstaðsetningu safnsins með að taka bindandi ákvörðun um uppbyggingu. Nái áætlunin yfir langan tíma sé hægt að dreifa kostnaðinum á fleiri ár.

Mynd: Austurland.is


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.