Talsvert tjón á húsum á Reyðarfirði

Miklar skemmdir urðu á húsnæði slökkviliðs Fjarðabyggðar við Mjóeyrarhöfn í Reyðarfirði í óveðrinu í dag. Einn af bröggum Stríðsárasafnsins er illa farinn.

„Ég man ekki eftir svona veðri. Maður keyrir um og nánast alls staðar eru brotin tré. Síðan eru skemmd húsþök hér og þar,“ segir Þórður Vilberg Guðmundsson, forstöðumaður stjórnsýslu- og upplýsingamála hjá Fjarðabyggð og íbúi á Reyðarfirði.

„Slökkvistöðin úti á Hrauni er illa farin og það eru skemmdir á fleiri húsum í Mjóeyrarhöfn. Inni í bæ skemmdist stafninn á Byko-skemmunni. Þetta eru nokkrir tugir trjáa. Í götunni þar sem ég bý er áratuga gamalt grenitré að rifna upp með rótum.“

Í höfninni losnaði gamli Jón Kjartansson frá bryggju. „Það gerðist þegar veðrið var hvað verst um miðjan daginn. Dráttarbáturinn Vöttur heldur við hann þar til lægir og hægt verður að binda hann aftur,“ segir Þórður og bætir við að ekki sé talin hætta á ferðum.

Hann var á ferð á svæði Stríðsárasafnsins þegar Austurfrétt ræddi við hann á sjötta tímanum. „Hér voru þrír upprunalegir braggar frá hernum uppistandandi. Einn þeirra er hruninn að hálfu. Það er skaði því hann myndaði hlut af þessari heildarmynd safnsins sem reynt hefur verið að halda í. Síðan var þakið byrjað að flagna af safninu sjálfu en björgunarsveitin fór í það verk.“

Að sögn Þórðar virðist veðrið heldur vera að ganga niður á Reyðarfirði.

ovedur 20220925 rfj1 doddi web

ovedur 20220925 rfj3 doddi web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.