Aflamet hjá Gullveri og Ljósafelli

Vel hefur fiskast á árinu hjá austfirskum skipum. Hin gamalgrónu fley Ljósafell og Gullver settu aflamet fyrr í mánuðinum.

Á heimasíðu Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði er greint frá því að Ljósafellið sé komið yfir fimm þúsund tonn af veiddum afla á yfirstandandi fiskveiðiári, sem lýkur um mánaðarmótin.

Haft er eftir Ólafi Helga Gunnarssyni, skipstjóra, að auknar fiskheimildir, stíf sjósókn og frábær áhöfn væri ástæða árangursins en aflinn í ár er tæplega helmingi hærri en meðaltal undanfarin 16 ár.

Gullver, sem gerir út frá Seyðisfirði á vegum Síldarvinnslunnar, náði fimm þúsund tonna markinu í byrjun mánaðarins. Eldra met þess var 4.400 tonn árið 2004. Um leið náði skipið í fyrsta sinn einum milljarði króna í aflaverðmæti.

„Staðreyndin er sú að þó að skipið sé gamalt þá er það ótrúlega gott – það hefur alltaf fiskast vel á það og það er ótrúlega gott í sjó. Þennan góða árangur má einnig þakka veiðarfærunum og frábærum köllum um borð. Síðustu ár höfum við einnig verið tiltölulega frjálsir varðandi það hvað við veiðum. Áður var það ekki svo,“ segir Þórhallur Jónsson, skipstjóri, í frétt á vef Síldarvinnslunnar.

Þá var aflamet slegið í Seyðisfjarðarhöfn í síðustu viku en mánuðurinn er sá stærsti í bolfisklöndun í sögu hafnarinnar en á land voru komin yfir 1100 tonn af bolfiski. Aflinn kom fyrst og fremst úr togurunum Gullveri og Kaldbaki.

Gullver kemur til heimahafnar. Mynd: Ómar Bogason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.