Aðstæður í Grindavík kalla á endurskipulagningu á bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar

Vinna er hafin hjá Síldarvinnslunni við að endurskipuleggja bolfiskvinnslu félagsins. Aðalvinnsla þess í Grindavík hefur verið óstarfhæf síðan bærinn var rýmdur vegna eldgosahættu 10. nóvember síðastliðinn. Forstjóri félagsins segir áhuga á að vinna með öðrum vinnslum sem geti tekið við meira hráefni.

„Við höfum nokkrar tilraunir til að hefja aftur starfsemi í bænum. Eftir jól var farið að verka saltfisk og við vorum að undirbúa að setja frystihúsið í gang þegar eldgosið braust út um miðjan janúar,“ sagði Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar þegar hann fór yfir ársuppgjör félagsins í síðustu viku.

Sumarið 2022 keypti Síldarvinnslan Vísi, eitt helsta útgerðarfélag Grindavíkur. Sérstaklega var horft til þess að nýta tæknivætt frystihús þess. Það tók á móti 9.100 tonnum af afla á síðasta ári og saltfiskvinnsla þar 7.300 tonnum.

Fyrstu viðbrögð Síldarvinnslunnar var að halda saltfiskvinnslu gangandi í gegnum dótturfélag Vísis í Cuxhaven í Þýskalandi. Þá var sótt framleiðslulína í frystihúsið um leið og opnað var fyrir umferð í Grindavík og henni komið upp á athafnasvæði Síldarvinnslunnar í Helguvík.

Ekki auðvelt að starfa í mannlausum bæ


Í kynningu sinni fór Gunnþór yfir áhrif aðstæðna í Grindavík til framtíðar á Síldarvinnslunnar. Hann sagði óvissuna skerða framlagð en ekki hafa áhrif á rekstrarhæfi samsteypunnar til lengri tíma. Um miðjan febrúar tók Vísir 130 starfsmenn af launaskrá sem þá fóru í úrræði Vinnumálastofnunar. Gunnþór sagði aðgerðir ríkisins til að tryggja stöðu íbúa jákvæðar því öryggi og líðan Grindvíkina væri alltaf í fyrirrúmi.

Á móti hefur ríkið enn takmarkað gripið inn í aðstæður atvinnurekenda í Grindavík. Íbúðahúsnæði verður keypt út en ekkert slíkt liggur fyrir um atvinnuhúsnæði. Gunnþór sagði lítið tjón enn á húsnæði Vísis en til dæmis sé óvissa um tryggingavernd á framleiðslu þar.

„Við erum að fara yfir hvort raunhæft sé að vera með starfsemi af einhverju tagi í Grindavík næstu misseri. Það er mikil áskorun að tryggja öryggi og líðan starfsfólks.

Starfsemi í mannlausum bæ er ekki einföld. Það er ekki auðvelt eða sjálfgefið að reka fyrirtæki af okkar stærðargráðu þegar búið er að kaupa upp eignir bæjarbúa og þeir búa orðið dreift um höfuðborgarsvæðið, þótt einhverjir séu á Reykjanesi.“

Vinnslur annars staðar sem geta tekið við meiru


Gunnþór sagði þetta kalla á endurskipulagningu og stefnumótun á bolfiskvinnslu Síldarvinnslunnar. Sú vinna sé farin af stað.

„Sem fyrirtæki verðum við að skoða hugsa hvernig við ætlum að fara í gegnum þetta. Við getum ekki setið og beðið en ef línur skýrast í Grindavík þá erum við enn þar með aðstöðu sem við getum nýtt.

Við höfum velt upp tækifærum í vinnslufélögum. Við vitum að það er til staðar vannýtt vinnslugeta í bolfiski á Íslandi. Það er ekki sjálfgefið að fjárfesta mikið annars staðar er hægt er að ná samkomulagi um að nýta slíkar vinnslur. Við þurfum að kynna framtíðarsýn á bolfiskhluta samstæðunnar fljótlega.“

Síldarvinnslan á einnig bolfiskvinnslu á Seyðisfirði sem tók á móti 2.100 tonnum á síðasta ári. Ákvörðun var tekin síðasta sumar um að loka henni og verður það gert í lok þessa mánaðar.

Mynd: Síldarvinnslan

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.