Á Vopnafirði skipta almennir kennarar með sér íþróttakennslu

Þrátt fyrir töluverðar auglýsingar eftir kennurum tókst aðeins að fullmanna allar almennar kennslugreinar í grunnskólanum  á Vopnafirði á allra síðustu metrunum. Enginn fékkst þó íþróttakennari svo þrír almennir kennarar skólans skiptast á að sinna því aukreitis.

Miðað við svör skólastjórnenda austanlands við fyrirspurnum Austurfréttar hefur almennt gengið sæmilega að ráða starfsfólk í skóla fjórðungsins. Það tókst líka á Vopnafirði að sögn Sigríðar Elvu Konráðsdóttur, skólastjóra grunnskóla Vopnafjarðar, en aðeins örskömmu áður en skólaárið hófst. Þar eru nú fleiri leiðbeinendur án kennararéttinda en gott geti talist.

„Þetta hafðist á lokametrunum ef við getum orðað það sem svo. Þó með þeim annmörkum að við fengum engan íþróttakennara og okkur vantar reyndar líka sérkennara á þessari stundu. Staðan nú er góð svona miðað við allt og allt en það eru vissulega fleiri við kennslu án réttinda hjá okkur en ég hefði viljað.“

Enginn sótti um starf íþróttakennara við skólann á þessu starfsári en Sigríður segir að með sameiginlegu átaki hafi tekist að finna lausn á því.

„Hún felst í því að það eru þrír almennir kennarar hjá okkur sem skipta íþróttakennslu á milli sín í vetur. Engin kjörstaða og sérstaklega ekki því í íþróttakennslu felst sundkennsla. En þetta var það eina sem okkur datt í hug til að halda úti kennslunni.“

Allsæmilega hefur gengið að manna skóla á Austurlandi fyrir skólaárið samkvæmt upplýsingum Austurfréttar. Sums staðar þarf þó að grípa til óhefðbundinna aðferða. Mynd Vopnafjarðarhreppur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.