Á þriðja tug björgunarsveitafólks leitaði Birnu: Alltaf gott að geta lagt lið

Á þriðja tug björgunarsveitarfólks úr sjö austfirskum sveitum tók þátt í mikilli leit að Birnu Brjánsdóttur um nýliðna helgi. Hópnum var hóað saman með afar skömmum fyrirvara.


„Skipulagningin byrjaði ekki fyrr en um hádegi á föstudag og klukkan sex um kvöldið voru 19 manns tilbúnir að fara suður.

Það er magnað að menn séu boðnir og búnir að keyra 700 kílómetra í svona verkefni,“ segir Jökull Fannar Helgason, björgunarsveitarmaður á Fáskrúðsfirði sem hélt utan um ferðina.

Í borginni bættust við sex félagar sem þar voru staddir þannig að alls voru 25 Austfirðingar við leitina. Þeim var síðan skipt upp í fjóra leitarhópa og falin margvísleg verkefni. Hópurinn var með flygildi meðferðis sem notaður var við leitina.

Farið var að austan um kvöldmat á föstudegi og komið í borgina um klukkan þrjú um nóttina. Klukkan hálf átta að laugardagsmorgni var morgunmatur, leitin hófst um klukkan níu og stóð fram í myrkur.

Aftur var byrjað að leita klukkan níu að morgni sunnudags en um klukkan tvö var leitin eftirkölluð eftir að Birna fannst látin. Hópurinn lagði af stað austur um klukkan fjögur og var komin heim klukkan tvö aðfaranótt mánudags.

Leitin beindist einkum að Reykjanesi en Jökull segir svæðið hafa verið erfitt. „Gönguskilyrði voru erfið. Sumir voru í erfiðu hrauni en annars staðar var frost að fara úr jörðu svo það var mikil drulla.“

Birnu hafði verið leitað í viku þegar kölluð var út allsherjar leit um helgina en litlar líkur voru þá að hún fyndist á lífi þótt vonin lifði.

„Ég held að menn fari alltaf eins gíraðir af stað í leit. Þær eru alltaf erfiðar. Tilfinningin hellist hins vegar yfir mann þegar leitinni er lokið. Það er samt alltaf gott að geta lagt lið og menn eru fegnir að hægt er að loka málinu.“

Framlag björgunarsveita víða af landinu hefur verið lofuð eftir helgina. „Þetta hefur eflt sveitirnar því við höfum fengið nokkrar nýskráningar eftir helgina. Það er greinilegt að svona hreyfir við mönnum.“

Frá leitinni um helgina. Mynd: Landsbjörg


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.