Á hvaða leið er gamla Austurlandskjördæmi?

Sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps hvetur Austfirðinga til að ræða þróun í fjórðungnum, meðal annars með tilliti til opinberrar þjónustu. Hann óttast að störf í stjórnsýslunni séu að færast af svæðinu norður til Akureyrar.

Áhyggjurnar og hugleiðingarnar birtast í erindi Vopnafjarðarhrepps um umræðuefni á þingi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Þar segir að stjórnunarstörf séu flutt til Akureyrar en eftir verði „veigaminni, lægra launuð“ störf. „Það er fullt af fólki í álverinu en það vantar störf fyrir maka. Á Egilsstöðum fór fjöldi skrifstofustarfa með brotthvarfi Kaupfélagsins og Malarvinnslunnar. Þau eru gríðarlega mikilvæg,“ segir Ólafur Áki.

„Bankarnir eru farnir norður með stjórnsýsluna og stjórnunarstörf farin frá opinberum fyrirtækjum. Starfsstöð RARIK á Egilsstöðum hefur minnkað verulega og Vegagerðin ætlaði að draga saman eystra. Ég þekki marga á Egilsstöðum sem eru að flytja suður, vel menntað fólk sem greinilega er boðið í annars staðar frá. Það er hroðalegt að horfa upp á þetta.“

Stjórnsýslan er ráðandi

Ólafur Áki var sveitarstjóri Djúpavogshrepps áður en hann flutti sig suður til Þorlákshafnar en hann kom aftur austur til starfa hjá Austurbrú og fór síðan til Vopnafjarðar. Hann segist hafa orðið var við miklar breytingar þegar hann sneri aftur eftir tíu ára fjarveru. „Mér fannst miklar breytingar í kjördæminu og vægi þess í landsmálunum hefur minnkað.

Þetta snýst ekki um þingmannastyrkinn. Stjórnsýslan á höfuðborgarsvæðinu er orðin svo ráðandi. Ég fann það þegar við fórum á fundi frá Austurbrú til að ræða flutning verkefna hvað menn héldu utan um sitt.“

Þráhyggja að flytja ekki verkefni

Ólafur Áki vill að ríkið dreifi störfum meira um landið með að flytja verkefni til. Til dæmis megi fela Austurbrú og Heilbrigðiseftirlitinu aukin verkefni. „Það er þráhyggja hjá ríkinu að flytja ekkert til sveitarfélaganna. Við þurfum ekki að hafa allt á einum stað í Reykjavík. Þegar störfin eru flutt suður er okkur sagt að tæknin sé orðin svo mikil en það hlýtur að vera rétt að spyrja hvort hún virki ekki í báðar áttir. Ríkið á fín hús á þessum stöðum og víða gott starfsfólk en það er þjappað saman í stað þess að færa verkefnin.

Okkur vantar menntastörfin. Austurbrú er mjög merkilegt verkefni en það hefur skort stuðning frá ríkinu við hana. Það ætti að rækta hana meira. Þar vantar til dæmis fjármagn í menntahlutann.“

Ólafur Áki hvetur til samræðu meðal Austfirðinga um stöðu fjórðungsins. „Við erum með veika punkta en við getum styrkt okkur. Byggðastofnun hefur haldið íbúaþing bæði hér og á Breiðdalsvík sem hafa komið afar vel út. Mér finnst að vissu leyti halla undan fæti hjá okkur en það vantar að við ræðum framtíðina og stöndum saman.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.